Sex verkefni eru tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár hvaðanæva af landinu.
Á Eyrarrósarlistanum 2018 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.
Eyrarrósarlistinn 2018:
Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 1. mars næstkomandi í Neskaupsstað, heimabæ þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.
Nánar um verkefnin á Eyrarrósarlistanum 2018:
Aldrei fór ég suður, Ísafirði
Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, sem í ár verður haldin í fjórtánda sinn, hefur fyrir löngu skapað sér sess sem einn af eftirtektarverðari menningarviðburðum ársins á landsvísu. Þar kemur fremsta tónlistarfólk landsins fram í bland við heimafólk. Dagskráin fer fram víða um Ísafjarðarbæ og í nágrannabyggðarlögum. Metnaður aðstandenda liggur í því að halda hátíð þar sem aðgangur er ókeypis fyrir alla og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á vestfirskri menningu og tónlist og hvetja innlenda sem erlenda gesti að kynnast
Vestfjörðum. https://aldrei.is/
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Northern Wave), Snæfellsbæ
Northern Wave, sem fagnaði tíu ára afmæli sínu í fyrra, er eina alþjóðlega stuttmyndahátíðin á Íslandi. Hátíðin býður upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra stuttmynda, hreyfimynda, vídeóverka og íslenskra tónlistarmyndbanda, auk annarra viðburða eins og fiskiréttasamkeppni, fyrirlestra, vinnustofur og tónleika. Auk þess að auðga menningarlífið og kynna svæðið er markmið hátíðarinnar að vera þekkingarsmiðja og vettvangur þar sem fagfólk úr greininni miðlar af reynslu sinni til nýrra kynslóða kvikmyndagerðafólks. http://www.northernwavefestival.com/
Ferskir vindar, alþjóðleg listahátíð í Garði
Listahátíðin Ferskir vindar er alþjóðleg hátíð sem haldin hefur verið í Garði annað hvert ár frá árinu 2010. Þangað er boðið hverju sinni 40-50 listamönnum úr öllum listgreinum og af fjölmörgum þjóðernum. Erlendir listamenn dvelja og vinna í Garði í um fimm vikur og sýna þar afrakstur sinn. Aðstandendur Ferskra vinda leitast við að koma á sem nánustum tengslum við íbúa bæjarfélagsins meðal annars með samstarfi við skólana með ýmsum uppákomum og beinni þátttöku nemenda. Öll dagskrá hátíðarinnar er ókeypis og opin almenningi, s.s. kynningar á listafólkinu og verkum þeirra, opnar vinnustofur, myndlistarsýningar, gjörningar, tónleikar o.fl.
LungA skólinn, Seyðisfirði
LungA skólinn er tilraunakenndur jarðvegur fyrir sköpun, listir og fagurfræði sem rekinn hefur verið af miklum metnaði á Seyðisfirði frá vorönn 2014 í góðum tengslum við LungA hátíðina. Hann er listaskóli fyrir þá sem hafa opinn huga, fyrir þá ótömdu og fyrir þá sem vilja rannsaka. Skólinn ýtir undir sérstöðu hvers einstaklings og styður við bakið á nemendum svo þeir finni sér sína leið í átt að sterkari sjálfsmynd, ásamt því að þroskast, skilja betur heiminn og finna sitt hlutverk í honum. Tvisvar á ári býður skólinn upp á 12 vikna nám þar sem um það bil 20 ungmenni fá tækifæri til að þroska sig sem listamenn undir leiðsögn reynslumikils listafólks víðs vegar að úr heiminum. https://lunga.is/school/
Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi
Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega frá árinu 2014 í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi og hefur þegar markað sér sess í íslensku menningarlífi. Um er að ræða metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 31 listamaður verk á sýningunni, íslenskir og erlendir. Aðsókn eykst ár frá ári en síðasta sumar er talið að allt að 10 þúsund manns hafi séð sýninguna á Djúpavogi.
https://www.facebook.com/rullandisnjobolti
Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda, Patreksfirði
Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda er eina kvikmyndahátíðin á landinu sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildarmyndir. Allt frá árinu 2007 hefur hátíðin verið haldin um hvítasunnuhelgina ár hvert á Patreksfirði og leiðir saman reynslubolta í faginu, byrjendur og hinn almenna áhorfanda. Þannig stuðlar hátíðin í samvinnu við heimamenn að skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.
http://skjaldborg.com/