Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:
Í Reykjavíkurbréfi s.l. sunnudag er fjallað um áhugaverð og þýðingarmikil atriði sem varða starfsemi dómstóla. Tekið skal undir þá ályktun að illa sé komið, þegar þeir sem síst skyldi standast ekki persónulegar og hóplægar freistingar og taka óhnekkjanlegar en löglausar ákvarðanir í þágu baráttu sinnar um völd.
Annað í bréfinu vekur væntanlega verðskuldaða athygli. Þar segir að spakmæli
kveði svo á að þá fyrst séu menn orðnir góðir lögfræðingar þegar þeir hafi
gleymt öllu sem þeir lærðu í lagadeildinni. Skilja ber bréfritara svo að orðið
„spakmæli“ sé öfugmæli um þessa kenningu. Tekið skal undir það.
Í lagadeildinni forðum lærðum við að lögin færu ekki í manngreinarálit.
Dómar ættu að byggja á hlutlægri meðferð réttarheimilda, þar sem togstreita
hagsmuna og þjóðfélagsátaka ætti ekki að hafa áhrif.
Flest erum við hins vegar undir þá sök seld að hafa fengist við alls konar
verkefni á lífsins vegi, þar sem lögfræðilegar pælingar hafa ekki svo mjög verið
í forgrunni. Þá hefur okkur hætt við að hverfa frá því sem við lærðum í
lagadeildinni, þegar við óspjölluð sátum þar og dáðum gyðju réttlætisins. Hún
fór ekki í manngreinarálit og var með bundið fyrir augu til að þekkja ekki einn
málsaðila frá öðrum.
Það er jafnvel hugsanlegt að í sýslan daganna höfum við einatt fundið
réttlætingar fyrir að gera eitthvað sem okkur kann að hafa fundist upplagt á því
augnabliki, sem hafst var að, þó að í bága færi við lærdóminn úr lagadeildinni.
Eftir að ákvarðanir um slík efni hafa verið teknar og framkvæmdar hættir okkur
til að réttlæta þær fyrir sjálfum okkur og öðrum. Þá hentar oft ekki vel að rifja
upp hreinlífið úr lagadeildinni. Og svo gleymum við kannski fljótlega flestu sem
þar var kennt og í staðinn hefur komið lífsmynd sem mótast hefur af basli
daganna í lífi okkar.
Gleymska okkar og aðlögun að eigin viðfangsefnum hefur hins vegar ekki fellt
niður lögmálin sem við lærðum forðum. Enn sem fyrr ættu menn að mega
blanda saman áfengi og pilsner, án þess að sæta refsingu fyrir. Sniðganga
dómara hjá lögum var jafn röng fyrr á tímum og hún myndi teljast nú. Sama er
að segja um áfellisdóma yfir sökuðum mönnum, sem ekki fullnægja kröfunum
sem okkur voru kenndar í lagadeildinni.
Við skulum reyna að halda áfram að vera börn í lögum ef í því felst að halda í
óspjallaða hugsjónina sem okkur lærðist í lagadeildinni forðum. Og við skulum
taka undir með höfundi Reykjavíkurbréfsins um að okkur sé ekki bara heimilt,
heldur jafnvel skylt, að segja deili á dómun æðsta dómstólsins sem misbjóða
réttlætisgyðjunni.
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.