Samantekt Ferðamálastofu leiðir í ljós að hægst hefur á fjölgun ferðamanna á vetrarmánuðum.
Brottfarir erlendra farþega* um Keflavíkurflugvöll voru 147.600 í janúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 11.500 fleiri en í janúar á síðasta ári.
Aukningin nemur 8,5% milli ára sem er álíka mikil aukning og var í nóvember (9,8%) og desember (8,4%) síðastliðnum en umtalsvert minni en í janúar síðustu ár.
Bretar voru fjölmennastir í janúar og stendur fjöldi þeirra í stað á milli ára, líkt og mánuðina á undan, en hins vegar hefur brottförum Norður-Ameríkana fjölgað mest og hlutur þeirra aukist á síðustu árum. Í heild hefur fjöldi brottfara í janúar meira en þrefaldast á undanförnum fimm árum.
Fjölgun brottfara á milli ára í janúar nú er umtalsvert minni en verið hefur á síðustu árum. Á milli áranna 2014 og 2015 var aukningin 34,5%, milli 2015 og 2016 var hún 23,6% og milli 2016 og 2017 var aukningin 75,3%.
Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Breta flestar í janúar í ár, um 38 þúsund talsins, litlu færri en í janúar 2017. Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir, voru 33.500 talsins en þær voru 8% fleiri en í janúar á síðasta ári. Brottfarir Breta og Bandaríkjamanna voru 48,4% af heild.
Brottfarir Kínverja í janúar í ár komu þar á eftir, um 6.500 talsins (4,4% af heild) en þeim fækkaði um 10,3% milli ára. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (4,2% af heild), Pólverja (3,7% af heild), Frakka (3,7% af heild), Ástrala og Ný-Sjálendinga (2,8% af heild), Kanadamanna (2,7% af heild), Spánverja (2,1% af heild), Dana (1,8% af heild), Hollendinga (1,8% af heild) og Íra (1,8% af heild).
Þannig má sjá að fleiri farþegar voru frá Eyjaálfu en Kanada í janúar, þrátt fyrir að frá Kanada sé beint flug. Hlutfallslega er mest fjölgun frá Póllandi en leiða má líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð vegna póskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna.
Fjöldi brottfara erlendra farþega hefur meira en þrefaldast í janúar á fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 2014. Þannig hefur fjöldi Norður Ameríkana nærri fimmfaldast, Mið- og Suður Evrópubúa meira en þrefaldast, fjöldi Breta meira en tvöfaldast og fjöldi þeirra sem koma frá löndum sem flokkast undir „annað“ nærri fimmfaldast. Brottförum Norðurlandabúa hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli á tímabilinu 2014-2017 eða um fjórðung.
Áhugavert er að skoða þá þróun sem verið hefur yfir vetrartímann á einstökum markaðssvæðum. Mesta athygli vekur að brottfarir Breta hafa staðið í stað eða heldur fækkað á milli ára, sé litið til þriggja síðustu mánuða. Bretlandsmarkaður hefur verið okkur afar mikilvægur yfir vetrarmánuðina en heldur fleiri Bretar hafa komið að vetri en sumri síðustu ár. Hlutfallsleg aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir „annað“ en þar undir eru meðal annars Austur-Evrópuþjóðir og Asíubúar. Norður-Ameríka sýnir nokkuð jafna aukningu en sé litið lengra aftur í tímann hefur dregið úr aukningu yfir vetrarmánuðina þaðan.
Hlutfallsleg samsetning farþega hefur breyst nokkuð frá árinu 2014 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar um brottfarir á árunum 2014-2018. Norður-Ameríkanar voru 25,4% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2014. Hlutdeild Breta var 25,7% árið 2018 en var mun hærri á árunum 2014-2016 eða um 35%. Norðurlandabúar voru 5,2% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið-og Suður-Evrópubúa hefur hins vegar stækkað frá 2013 til 2017 en þeirra sem falla undir ,,annað“.
Þjóðernum í brottfarartalningum var fjölgað úr 18 í 32 í júní síðastliðnum. Þjóðernin sem bættust við eru Austurríkismenn, Ástralir, Belgar, Hong Kong búar, Indverjar, Ísraelar, Írar, Singapúr-búar, S-Kóreumenn og Tævanar. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru nú ennfremur taldir sérstaklega og þá undir sama hatti og hið sama má segja um Eista, Letta og Litháa. Niðurstöður gefa færi á að setja niðurstöður fram eftir fleiri markaðssvæðum en verið hefur. Sjá nánar í Excel-skjali
Um 39 þúsund Íslendingar fóru utan í janúar í ár eða 4,8% fleiri en í janúar 2017.
Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.