fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Ferðamálastofa: Hægir á fjölgun vetrarferðamanna til Íslands

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 16:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samantekt Ferðamálastofu leiðir í ljós að hægst hefur á fjölgun ferðamanna á vetrarmánuðum.

Brottfarir erlendra farþega* um Keflavíkurflugvöll voru 147.600 í janúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 11.500 fleiri en í janúar á síðasta ári.

Aukningin nemur 8,5% milli ára sem er álíka mikil aukning og var í nóvember (9,8%) og desember (8,4%) síðastliðnum en umtalsvert minni en í janúar síðustu ár.

Bretar voru fjölmennastir í janúar og stendur fjöldi þeirra í stað á milli ára, líkt og mánuðina á undan, en hins vegar hefur brottförum Norður-Ameríkana fjölgað mest og hlutur þeirra aukist á síðustu árum. Í heild hefur fjöldi brottfara í janúar meira en þrefaldast á undanförnum fimm árum.

Fjölgun brottfara á milli ára í janúar nú er umtalsvert minni en verið hefur á síðustu árum. Á milli áranna 2014 og 2015 var aukningin 34,5%, milli 2015 og 2016 var hún 23,6% og milli 2016 og 2017 var aukningin 75,3%.

12 fjölmennustu þjóðerni

Bretar og Bandaríkjamenn tæplega helmingur

Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Breta flestar í janúar í ár, um 38 þúsund talsins, litlu færri en í janúar 2017. Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir, voru 33.500 talsins en þær voru 8% fleiri en í janúar á síðasta ári. Brottfarir Breta og Bandaríkjamanna voru 48,4% af heild.

Fleiri frá Eyjaálfu en Kanada

Brottfarir Kínverja í janúar í ár komu þar á eftir, um 6.500 talsins (4,4% af heild) en þeim fækkaði um 10,3% milli ára. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (4,2% af heild), Pólverja (3,7% af heild), Frakka (3,7% af heild), Ástrala og Ný-Sjálendinga (2,8% af heild), Kanadamanna (2,7% af heild), Spánverja (2,1% af heild), Dana (1,8% af heild), Hollendinga (1,8% af heild) og Íra (1,8% af heild).

Þannig má sjá að fleiri farþegar voru frá Eyjaálfu en Kanada í janúar, þrátt fyrir að frá Kanada sé beint flug. Hlutfallslega er mest fjölgun frá Póllandi en leiða má líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð vegna póskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna.

Brottfarir farþega janúar 2018 - markaðssvæðiRúmlega þreföldun á fimm árum

Fjöldi brottfara erlendra farþega hefur meira en þrefaldast í janúar á fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 2014. Þannig hefur fjöldi Norður Ameríkana nærri fimmfaldast, Mið- og Suður Evrópubúa meira en þrefaldast, fjöldi Breta meira en tvöfaldast og fjöldi þeirra sem koma frá löndum sem flokkast undir „annað“ nærri fimmfaldast. Brottförum Norðurlandabúa hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli á tímabilinu 2014-2017 eða um fjórðung.

 

Bretar standa í stað yfir veturinn

Áhugavert er að skoða þá þróun sem verið hefur yfir vetrartímann á einstökum markaðssvæðum. Mesta athygli vekur að brottfarir Breta hafa staðið í stað eða heldur fækkað á milli ára, sé litið til þriggja síðustu mánuða. Bretlandsmarkaður hefur verið okkur afar mikilvægur yfir vetrarmánuðina en heldur fleiri Bretar hafa komið að vetri en sumri síðustu ár. Hlutfallsleg aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir „annað“ en þar undir eru meðal annars Austur-Evrópuþjóðir og Asíubúar. Norður-Ameríka sýnir nokkuð jafna aukningu en sé litið lengra aftur í tímann hefur dregið úr aukningu yfir vetrarmánuðina þaðan.

 

N-Ameríkanar auka stöðugt hlut sinn

Samsetning eftir markaðssvæðumHlutfallsleg samsetning farþega hefur breyst nokkuð frá árinu 2014 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar um brottfarir á árunum 2014-2018. Norður-Ameríkanar voru 25,4% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2014. Hlutdeild Breta var 25,7% árið 2018 en var mun hærri á árunum 2014-2016 eða um 35%. Norðurlandabúar voru 5,2% af heild árið 2018 en hlutdeild þeirra hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið-og Suður-Evrópubúa hefur hins vegar stækkað frá 2013 til 2017 en þeirra sem falla undir ,,annað“.

 

14 þjóðerni bætast við

Þjóðernum í brottfarartalningum var fjölgað úr 18 í 32 í júní síðastliðnum. Þjóðernin sem bættust við eru Austurríkismenn, Ástralir, Belgar, Hong Kong búar, Indverjar, Ísraelar, Írar, Singapúr-búar, S-Kóreumenn og Tævanar. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru nú ennfremur taldir sérstaklega og þá undir sama hatti og hið sama má segja um Eista, Letta og Litháa. Niðurstöður gefa færi á að setja niðurstöður fram eftir fleiri markaðssvæðum en verið hefur. Sjá nánar í Excel-skjali

Ferðir Íslendinga utan

Um 39 þúsund Íslendingar fóru utan í janúar í ár eða 4,8% fleiri en í janúar 2017.

Nánari upplýsingar*

Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og vert er að hafa í huga að með þessari aðferð ná talningarnar yfir alla sem fara í gegnum öryggisleit. Tölurnar ber því að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Þó ber að ítreka að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum.
Niðurstöður úr könnun sem Isavia hefur látið framkvæma meðal brottfararfarþega tvívegis á árinu, annars vegar yfir hásumarið (júlí-ágúst) og hins vegar í nóvember gefa til kynna að 86,3% brottfararfarþega yfir hásumarið og 92,1% í nóvember voru að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi. Þeir sem voru erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma reyndust 2,7% brottfara yfir hásumarið og 4,7% í nóvember. Þeir sem millilentu án þess að fara út af flugvellinum reyndust 4,8% yfir hásumarið og 1,7% í nóvember en þeir sem millilentu og nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði reyndust 6,2% yfir hásumarið og 1,6% í nóvember. Sjá nánar

Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Brottfarir farþega janúar 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Umpólun Snorra?
Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?