Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, kemur með athyglisverða nálgun á Landsréttarmálið í pistli á heimasíðu sinni, er hann ber það saman við úrskurð umhverfis- og auðlindamála um að fella úr gildi ákvörðun borgarstjórnar, um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina við Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1:
„Nefndarformaður Samfylkingar á þingi vill rannsókn vegna brota á stjórnsýslulögum, nefndarformaður Samfylkingar í borg segir tilganginn helga brot á lögunum.“
Þá segir Björn einnig:
„Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki einungis hafi rannsókn málsins hjá borginni verið verulega áfátt heldur hafi rökstuðningur ákvörðunarinnar verið ófullnægjandi hjá umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar undir formennsku samfylkingarmannsins Hjálmars Sveinssonar. Er aðild Hjálmars að meðferð málsins hjá skipulagsráði og í borgarstjórn auk þess talin orka tvímælis enda hafi opinber ummæli hans verið til þess fallin að draga í efna óhlutdrægni hans.“
Þá vitnar Björn í grein Morgunblaðsins í dag, þar sem Hjálmar er inntur svara, hvort hann hafi hugleitt að segja af sér vegna þessa máls, þar sem hann hafi brotið rannsóknarskyldu, skyldu til rökstuðnings og taldist hlutdrægur, allt í bága við stjórnsýslulög.
Hjálmar svarar:
„Minn hlutur í þessu máli er fyrst og fremst að standa fastur á því að vernda gömul hús. Ég hef aldrei dregið dul á það að ég tel ótækt að rifa þessi gömlu hús þarna. Ég er húsafriðunarmaður og stend við það.“
Um svör Hjálmars segir Björn:
„Þarna helgaði tilgangurinn sem sé meðalið! Hvað segir Helga Vala um þetta? Eða umboðsmaður alþingis? Er ekki líka starfandi umboðsmaður borgara á vegum borgarstjórnar?“