Skoðanakönnun Fréttablaðsins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hlýtur að teljast nokkuð uppörvandi fyrir Eyþór Arnalds og Sjálfstæðisflokkinn. Fylgið er 35,2 prósent, næstum tíu prósentustigum meira en það var í síðustu kosningum og tveimur prósentustigum meira en það var 2ö10 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var í framboði. Flokkurinn fengi samkvæmt þessu níu borgarfulltrúa í 23 manna borgarstjórn.
Meirihlutinn í borginni heldur en bara rétt svo. Björt framtíð þurrkast út. Samfylkingin tapar um 5 prósentustigum frá því í síðustu kosningum.
En við erum ekki komin með framboðin eins og þeir eiga eftir að verða. Framsókn nær ekki manni inn, en þeir eiga í raun alveg eftir að kynna lista sinn. Viðreisn er ekki búin að stilla upp, þannig að við vitum í raun ekkert hvernig henn á eftir að reiða af. Líklegra er að Viðreisn starfi með ríkjandi meirihluta en Sjálfstæðisflokkurinn. Miðflokkurinn sem fær 6 prósent mun nær ábyggilega starfa með Eyþóri.
En eins og áður segir ætti þetta að vera vindur í seglin hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er líka sennilegt að hann reki afar breiða og harðskeytta kosningabaráttu. Hinir flokkarnir þurfa að vera búnir undir það. Uppstillingin á listanum einkennist nokkuð af því að hverfin hafi sína fulltrúa – og það er væntanlega upptaktur að því að kosningabarátta Sjálfstæðismanna fari fram úti í hverfunum. Þetta verða ábyggilega mjög harðar kosningar.