fbpx
Sunnudagur 18.ágúst 2024
Eyjan

Stjórnarskrárfélagið gagnrýnir hugmyndir forsætisráðherra

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 26. febrúar 2018 14:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Stjórnarskrárfélagið hefur ályktað um minnisblað Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á stjórnarskránni. Þar er lýst yfir áhyggjum af því fyrirkomulagi sem forsætisráðherra leggur til, í ljósi sögulegrar reynslu og þess sem á undan er gengið. Leggur félagið til réttlátara og skilvirkara fyrirkomulag, að eigin sögn.

 Katrín Jakobsdóttir sagði í síðasta mánuði að skoðað yrði hvort almenningur fengi aðkomu að breytingum á nýrri stjórnarskrá, eftir að stjórnmálaflokkarnir mótuðu afstöðu sína til breytinga hennar:

„Allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi vinni sameiginlega að því að fara skipulega og heildstætt yfir stjórnarskrá lýðveldisins og tillögur sem fram hafa komið á undanförnum árum með það fyrir augum að vinna að breytingartillögum sem lagðar yrðu fyrir Alþingi hverju sinni í breiðri sátt að undangengnu víðtæku samráði,“

sagði Katrín í minnisblaðinu til formanna stjórnmálaflokkanna.

Þar segir hún einnig:

„Hliðsjón verður höfð af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, sbr. t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005–2007 og 2013–2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram. Eftir eðli málsins hverju sinni verður skoðað hvort efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök frumvörp, annaðhvort í formi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða alþingiskosningum eða í formi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lok ferlis.“

 

Stjórnarskrárfélagið leggur til að ef virkja eigi almenning til að ljúka ferlinu, líkt og kveði á um í minnisblaði forsætisráðherra, eigi það að gerast strax í upphafi. Þá þyrfti að kalla til almenna borgara með slembivali og fela þeim að fara yfir tillögurnar sem liggja fyrir:

„Það mætti gera með þjóðfundarfyrirkomulagi eða rökræðukönnunum (e. Deliberative Democracy) eftir atvikum.
Takmarkið hlýtur að vera að endurspegla sjónarmið borgaranna í stjórnarskránni svo hún
gegni hlutverki sínu sem samfélagssáttmáli og grunnlög þjóðarinnar. Meira en sjötíu ára
reynsla Íslendinga af stjórnarskrárnefndum þingsins hlýtur að teljast sönnun þess að einskis
árangurs er að vænta af slíkri nefnd,“

segir í ályktuninni.

 

Hér má lesa ályktun félagsins í heild sinni:

 

Ályktun stjórnar Stjórnarskrárfélagsins vegna minnisblaðs forsætisráðherra um fyrirhugaða

endurskoðun stjórnarskrár dags. 22. janúar 2018.
Stjórnarskrárfélagið fagnar öllum einlægum áformum um að ljúka heildarendurskoðun
stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ljúka því ferli sem hófst í kjölfar Hrunsins með
víðtækri þátttöku almennings og bar svo ríkulegan ávöxt. Jafnframt lýsir félagið yfir
áhyggjum af því fyrirkomulagi sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur til, ekki síst í
ljósi sögulegrar reynslu og þess sem á undan er gengið. Auk þess að gera athugasemdir við
tillögu forsætisráðherra leggur Stjórnarskrárfélagið til skilvirkara og réttlátara fyrirkomulag.
Áform forsætisráðherra verða að fela í sér viðurkenningu á lýðræðislegum
grundvallargildum, í orði og í verki. Það er lykilatriði ef ljúka á endurskoðun
stjórnarskrárinnar sómasamlega og farsællega fyrir land og þjóð. Þau grunvallargildi eru
meðal annars að lýðræðisleg niðurstaða lögmætra kosninga sé virt og viðurkennt að
uppspretta ríkisvalds sé hjá þjóðinni. Staðreyndin sem enginn stjórnmálaflokkur má leyfa sér
að líta framhjá er sú, að endurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram í kjölfar Hrunsins í löngu og
lýðræðislegu ferli með mikilli þátttöku almennings þannig að vakið hefur athygli og aðdáun
víða um heim. Niðurstaða þess ferlis voru tillögur að nýrri stjórnarskrá sem hlutu
brautargengi með 2/3 hlutum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Þær tillögur,
„nýja stjórnarskráin“ sem svo er nefnd, hljóta að verða útgangspunkturinn þegar ljúka á ferli
endurskoðunarinnar. Ef stjórnmálaflokkar á Alþingi treysta ekki þjóðinni, hví skyldi þjóðin
þá treysta stjórnmálaflokkunum?
Frumvarp að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá lá fyrir fullbúið af hálfu Alþingis í mars
2013, frumvarp sem var efnislega í samræmi við niðurstöðu Þjóðfundar 2010, tillögur
Stjórnlagaráðs og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Í frumvarpi Alþingis hafði
jafnframt verið brugðist við athugasemdum Feneyjarnefndarinnar og fjölmargra annarra. Í því
ljósi er fullkomlega ástæðulaust að draga endurskoðun stjórnarskrárinnar í heil tvö
kjörtímabil, átta ár. Víðtæk sátt sýndi sig vera um tillögur að hinni nýju stjórnarskrá meðal
almennings. Ósætti og ósamkomulag milli stjórnmálaflokka á Alþingi á ekki og má ekki
standa í vegi fyrir þeirri sátt. Þrátt fyrir allt er enginn ágreiningur um að þjóðin er
stjórnarskrárgjafinn þótt Alþingi samþykki að forminu til lögfestingu nýrrar stjórnarskrár.
Stjórnarskrárfélagið leggur til að eftirfarandi orð Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns verði
höfð að leiðarljósi við að ljúka stjórnarskrárferlinu, en þau voru sett fram með hliðsjón af því
lýðræðislega ferli sem fæddi af sér nýju stjórnarskrána:

„Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því
færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að
breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur
ráðsins.“

Ef ætlunin er að virkja almenning til að ljúka stjórnarskrárferlinu, líkt og minnisblað
forsætisráðherra gefur fyrirheit um, telur Stjórnarskrárfélagið áríðandi að það sé gert strax í
byrjun. Fyrsta skrefið í ferlinu þyrfti að vera að kalla saman almenna borgara með slembivali
og fela þeim að yfirfara tillögurnar sem liggja fyrir. Það mætti gera með
þjóðfundarfyrirkomulagi eða rökræðukönnunum (e. Deliberative Democracy) eftir atvikum.
Takmarkið hlýtur að vera að endurspegla sjónarmið borgaranna í stjórnarskránni svo hún
gegni hlutverki sínu sem samfélagssáttmáli og grunnlög þjóðarinnar. Meira en sjötíu ára
reynsla Íslendinga af stjórnarskrárnefndum þingsins hlýtur að teljast sönnun þess að einskis
árangurs er að vænta af slíkri nefnd.
Árið er 2018 og viðeigandi að hin nýja stjórnarskrá yrði lögfest á 100 ára fullveldisafmæli
íslenska ríkisins þann 1. desember næstkomandi. Fullveldið er þjóðarinnar, þjóðin er
stjórnarskrárgjafinn og frá henni er allt ríkisvald sprottið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólga vegna gjaldskráa á Akureyri – „Ef þeir taka ekki þátt í þessu gefur það auga leið að samningar munu losna“

Ólga vegna gjaldskráa á Akureyri – „Ef þeir taka ekki þátt í þessu gefur það auga leið að samningar munu losna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Mörg ríki hanga milli vonar og ótta á húninum í Brussel

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Mörg ríki hanga milli vonar og ótta á húninum í Brussel
Eyjan
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Ekki nefna vextina!

Thomas Möller skrifar: Ekki nefna vextina!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór sýnir myndir sem slá vopnin úr höndum ráðherra – „Eignarhald kennir ekki virðingu“

Ragnar Þór sýnir myndir sem slá vopnin úr höndum ráðherra – „Eignarhald kennir ekki virðingu“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Grátandi ferðaþjónusta

Óttar Guðmundsson skrifar: Grátandi ferðaþjónusta