Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hefur tekið sér ársleyfi samkvæmt tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu. Heiða Björg Pálmadóttir tekur við starfi Braga á meðan. Ástæðan fyrir leyfi Braga er sú að ríkisstjórn Íslands sóttist eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og verður Bragi í kjöri til nefndarinnar.
Nefndin er skipuð 18 sérfræðingum er hafa það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Barnasáttmálans. Nefndarmenn fá ekki greidd laun fyrir vinnu sína í nefndinni, en fá hinsvegar dagpeninga fyrir helstu útgjöldum, líkt og gistingu og mat, meðan á fundarhöldum stendur. Bragi hinsvegar verður á fullum launum frá Barnaverndarstofu, gangi framboðið eftir.
Nefndarmenn þurfa þó að uppfylla ákveðin skilyrði. Til dæmis að vera óháðir barnaverndaryfirvöldum síns lands og vera að fullu sjálfstæðir gagnvart landi sínu og þjóð í vinnu sinni. Þá þurfa þeir að hafa sérfræðiþekkingu á málefnum barna og er æskilegt að þeir hafi lögfræðikunnáttu sem nýtist í starfinu.
Þá er þess krafist að nefndarmenn hafi sérstaklega sterka siðferðiskennd: „Treaty body members must be persons of high moral character.“
Nú hefur Þorsteinn Víglundsson, sem var félags- og jafnréttismálaráðherra þegar kvartanir vegna Braga bárust, kallað eftir niðurstöðum á athugun Velferðarráðuneytisins vegna þeirra kvartana barnanefnda á höfuðborgarsvæðinu yfir störfum Braga og segir að í ljósi alvarleika málsins geti Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, ekki leynt þeim niðurstöðum. Ýmislegt hefur gengið á í samskipum Braga og ráðuneytisins en ráðuneytið sagði fullyrðingar Barnaverndarstofu rangar þegar gerð var tilraun til að útskýra málavöxtu.
Í gærkvöldi ályktuðu síðan Ung vinstri græn um Braga og sögðu það ólíðandi að Bragi hafi verið tilnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar SÞ þar sem Bragi situr undir gagnrýni að fara ekki sjálfur eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Krefjast þau þess að ráðherra dragi útnefningu Braga tilbaka.
Ásmundur Einar Daðason var mjög áhugasamur og metnaðarfullur um að gera stóra hluti í málefnum barna í Velferðarráðuneytinu er hann tók þar við í byrjun árs, samkvæmt heimildum Eyjunnar. Ekki væri vanþörf á, þar sem Ríkisendurskoðun hafði komist að því árið 2015, að yfirstjórn ráðuneytisins í málaflokki barna hafi verið veik og hún hefði ekki sinnt stefnumótunar- og eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti.
Með öðrum orðum, ekki var nægjanleg þekking á barnavernd og málefnum barna í ráðuneytinu.
Sökum þessa bað nýi ráðherrann Braga um að starfa með sér að því að auka og efla þekkinguna í ráðuneytinu. Bragi ku ekki hafa verið undir neinni pressu varðandi „óþægilegu málin“ hans og því hafi Braga ekki verið bolað burt úr Barnaverndarstofu á þægilegan hátt, líkt og einhverjir hefðu getað haldið þegar tilkynnt var um ársleyfi Braga. Þvert á móti væri verið að verðlauna Braga fyrir „ófagleg vinnubrögð, óeðlileg afskipti og erfið mál“ líkt og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, komst að orði í Silfrinu í gær.
Samkvæmt handbók Sameinuðu þjóðanna um kosninguna í Barnaréttarnefndina, er lítið mál að draga framboð tilnefndra fulltrúa til baka. Það þarf aðeins að tilkynnast í tíma fyrir kosninguna sjálfa, kjósi yfirvöld að gera það.