Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, greinir frá því á Facebooksíðu sinni í morgun, að hún ætli að bjóða sig fram til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum í mars.
„Það hefur verið dýrmætt að fá hvatningu víða að og hún vegur þungt í minni ákvörðun. Ég hlakka til að eiga samtöl við sem flesta á næstu dögum og vikum um sóknarfæri okkar Sjálfstæðismanna.“
Þórdís er sú fyrsta til að staðfesta framboð sitt til embættisins, en Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norð-vestur kjördæmis, sagðist í gær ætla að hugsa málið, eftir að margir höfðu komið að máli við hann varðandi varaformennsku í flokknum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður og ritari flokksins, hefur einnig gegnt stöðu varaformanns frá andláti Ólafar Nordal.