fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Eyjan

Hark-hagkerfið

Egill Helgason
Laugardaginn 24. febrúar 2018 14:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég lýsti um daginn eftir orði yfir það sem á ensku kallast „the gig economy“. Um þetta kerfi hefur verið mikil umræða í Bretlandi til að mynda. Þetta er fyrirkomulag vinnu sem byggir á tímabundnum ráðningum, verktakavinnu, því sem kallast núll-samningar – mjög litlu eða engu atvinnuöryggi, það er hægt að ráða fólk og reka það fyrirvaralaust. Lítt er hugað að greiðslum í lífeyrissjóði, orlofi, sjúkra- og atvinnuleysistryggingum.

Ég fékk nokkrar tillögur, það hefur náttúrlega lengi verið talað um íhlaupavinnu á Íslandi, en sú sem mér leist best á kom frá Ólafi Teiti Guðnasyni. Hann talaði um hark og harkkerfið eða hark-hagkerfið. Það er vissulega nokkuð gildishlaðið, en sjálfum finnst mér það ekki verra. Það er svo margt neikvætt við þessa þróun. Í Bretlandi hefur umræðan ekki einungis snúist um hvaða áhrif þetta hefur á vinnumarkaðinn, heldur sjá menn líka að skattgreiðslur skila sér illa úr hark-hagkerfinu. Þá vakna yfirvöld upp við vondan draum.

En þetta hefur verið að breiðast út síðustu áratugina, þekkt dæmi er leigubílafyrirtækið Uber – um það hafa verið deilur víða. Stórfyrirtæki eins og Amazon hafa notað þetta og í Bretlandi hefur staðið styrr um verslunarkeðjuna Sports Direct sem veitir starfsfólki sínu engin réttindi umfram að mæta í vinnuna og fá kaup fyrir einn dag í senn – til þess svo að geta verið rekið næsta dag.

En þetta er svo miklu víðar. Á Íslandi er talað um gerviverktöku. Meira að segja ríki og borg útvista verkefnum í stórum stíl til fyrirtækja sem stunda slíkt. Mörg þeirra hafa svo fjölda innflytjenda í vinnu – sem eru ekki líklegir til að kvarta eða leita til verkalýðsfélaga.

Það hefur mikið verið rætt um að ungt fólk á Vesturlöndum njóti verri kjara en foreldrar þess. Þetta er í fyrsta skipti í allmargar kynslóðir að slíkt gerist. Og það er aðallega ungt fólk  sem er ofurselt hark-hagkerfinu. Það getur verið hentugt tímabundið, vissulega, að hlaupa í slík störf, íhlaupavinnu. En svo festist fólk í þessu og stendur loks uppi vita réttindalaust þegar aldurinn færist yfir. Það má vera að ýmis þjónusta fáist ódýrar með þessu móti – en þegar til langs tíma er litið er samfélagslegi ávinningurinn í mínus.

Einn aðal sölupunktur hark-hagkerfisins er að þetta sé allt svo óskaplega nútímalegt, að þarna sjáum við upplýsingatækina í verki. (Evrópudómstóllinn úrskurðaði reyndar nýlega að Uber væri leigubílastöð en ekki netfyrirtæki.) Það er látið eins og íhlaupavinnan sé einhvers konar lífsstíll. Þetta viðhorf höfðar mjög til þeirra sem eru vel stæðir og í millistétt. Og þannig er hægt að þagga niður í gagnrýnisröddum, láta þær virka gamaldags og forpokaðar. Þeir sem andæfa tala þó yfirleitt bara í anda þess sem þótti sjálfsagt í verkalýðsbaráttu 20. aldarinnar – og reyndar færir harkið okkur heim sanninn um að þörfin fyrir samstöðu vinnandi fólks hefur síst minnkað.

Hér er svo ágæt grein um þetta, hún er eftir Fionn Rogan, birtist í The Irish Times og nefnist Hark-hagkerfið er stórfellt arðrán á þúsaldarkynslóðinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“