Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Friðriksdóttir, sem fékk ekki sæti á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnakosningar, skrifar á Facebooksíðu sína í dag. Þar segir hún farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Sjálfstæðisflokkinn:
„Kæru vinir, enginn getur gengið að neinu vísu í pólitík. Góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefur litla þýðingu, þegar leikreglum er breytt og uppstillingarvaldið sett í fárra hendur.“
Þarna á Áslaug við ákvörðunina um leiðtogakjör, sem tekin var af stjórn Sjálfstæðisfélagsins Varðar í sumar, en Áslaug var því mótfallin líkt og hún greindi frá í viðtali við RÚV í ágúst:
„Ég hef auðvitað mikinn áhuga á að bjóða mig fram í fyrsta sæti en mér hugnast ekki sú aðferð sem lögð er fram af Verði að fara í þetta leiðtogaprófkjör. Ég held að þetta sé of þröng leið. Við Sjálfstæðismenn eigum bara að halda okkur við opið lýðræðislegt prófkjör eins og flokkurinn hefur gert að undanförnu. Það hefur reynst bara mjög vel.“
Áslaug lenti í 2. sæti í leiðtogakjöri flokksins fyrr í vetur og óskaði eftir 2. sæti á lista, þrátt fyrir vitneskju um að meirihluti kjörnefndar styddi hana ekki, nema að Eyþór Arnalds styddi þá tillögu:
„Mér eru það vissulega vonbrigði að eiga ekki sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég óskaði eftir að skipa 2. sæti listans, þrátt fyrir að vita að ég hefði ekki stuðning meirihluta kjörnefndar nema nýr leiðtogi styddi þá tillögu. Svo reyndist ekki vera og því fór sem fór.“
Þá segist Áslaug ætla að sitja áfram út kjörtímabilið og segist lítast vel á nýjar konur á framboðslistanum, enda séu þær skoðanasystur hennar í mörgum málum:
„Vonandi munu þær fylgja skoðunum sínum eftir og kanna öll mál með opnum huga. Flokkurinn þarf ekki á því að halda að allir séu steyptir í sama mót.“
Ekkert hefur bólað á yfirlýsingu frá borgarfulltrúanum Kjartani Magnússyni, sem einnig var bolað í burtu af Sjálfstæðisflokknum, en hann fékk ekki sæti á listanum heldur.