Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um greiðslur ríkisins til stjórnmálasamtaka fyrir árið 2018. Framlög fara eftir stærð flokkanna samkvæmt atkvæðafjölda og fær því Sjálfstæðisflokkurinn hæsta framlagið, eða rúmar 166 milljónir. Viðreisn fær minnsta framlagið, eða rétt tæpar 44 milljónir.
Framlagið hækkar milli ára um 127 prósent. Tillaga um að hækka framlög til flokkanna var lögð fram í lok síðasta þings, en Píratar og Flokkur fólksins skrifuðu sig ekki fyrir tillögunni. Í tillögunni sem bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“ var farið fram á „leiðréttingu“ til fjárframlaga, þar sem framlögin hefðu lækkað um helming að raunvirði frá 2008.
Um framlögin gilda lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Greiðslur til stjórnmálasamtaka eru samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða eiga rétt til framlaga. Það framlag skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í næstliðnum kosningum.
Samtals fá flokkarnir á Alþingi því 648 milljónir, stjórnarflokkarnir 347,5 milljónir og stjórnarandstöðuflokkarnir 300,5 milljónir.
Hér fyrir neðan má sjá öll framlögin, og hver upphæð þeirra hefði verið fyrir hækkunina:
Sjálfstæðisflokkur: 166.023.424 milljónir Fyrir hækkun: 93 milljónir
Vinstri græn: 111.097.777 milljónir Fyrir hækkun: 49 milljónir
Framsóknarflokkur: 70.422.909 milljónir Fyrir hækkun: 31 milljón
Samfylking: 79.258.862 milljónir Fyrir hækkun: 35 milljónir
Miðflokkur: 71.495.152 milljónir Fyrir hækkun: 31 milljón
Píratar: 60.491.259 milljónir Fyrir hækkun: 27 milljónir
Flokkur fólksins: 45.241.953 milljónir Fyrir hækkun: 20 milljónir
Viðreisn: 43.968.664 milljónir Fyrir hækkun: 20 milljónir