Samtals hefur verð á bílaleigubílum við Leifsstöð lækkað um 38% frá því 2015, um 24% í evrum talið og 17% í dollurum talið, sökum styrkingar krónu síðastliðin þrjú ár. Þá er miðað við gengið í febrúar 2015 og febrúar 2018. Þetta kemur fram á Túristi.is.
Forsendurnar eru að leigður sé minnsti bíllinn í tvær vikur hjá einhverjum þeirra bílaleiga sem bjóða þjónustu sína við Leifsstöð, en það kostaði að lágmarki 123 þúsund sumarið 2015 en kostar nú 76 þúsund. Munurinn er því 38 prósent.
Ísland er þó ennþá með hæsta meðalleiguverðið miðað við 12 aðrar flugstöðvar í Evrópu. Stokkhólmur er næstdýrast og þá Osló. Alicante er ódýrast, samkvæmt Túrista.is.
„Í verðkönnunum Túrista er fundið við leiguverð á ódýrasta bílaleigubílnum við hverja flugstöð fyrir sig og miðað er við tveggja vikna leigutíma í júní, júlí og ágúst og reiknað út meðalverð á dag. Notast er við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Þannig kostar ódýrasti bílaleigubíllinn á Keflavíkurflugvelli seinni hlutann í júlí rúmlega 86 þúsund skv. Rentalcars en ef bókað er beint hjá Hertz er verðið að lágmarki 139.200 og 154.599 hjá Avis. Þess má geta að verðskrár þessara tveggja bílaleigufyrirtækja hafa líka lækkað verulega frá því í febrúar 2015. Þá kostaði ódýrasti bíllinn hjá Hertz 198.800 kr. og 214.300 hjá Avis. Í öllum tilvikum er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í verðinu.“