Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, mannauðsstjóri, gefur kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem fer fram þann 10. mars nk. Guðbjörg hefur sinnt mörgun trúnaðarstörfum fyrir Hafnarfjarðarbæ og Sjálfstæðisflokkinn. Hún er varaformaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar. Hún hefur tekið þátt í starfshópi um málefni dagforeldra og er nú í starfshópi um bættar starfsaðstæður á leikskólum bæjarins. Guðbjörg telur að hægt sé að gera betur í dagvistunarmálum barna og huga betur að þörfum fjölskyldna og starfsmanna. Guðbjörg vill leggja áherslu á meiri samfellu í skóla-, íþrótta og tómstundastarfi hjá hafnfirskum börnum. Hún telur að Hafnarfjarðarbær geti þjónustað alla aldurshópa betur nú þegar rekstur sveitarfélagsins er stöðugri.
Guðbjörg starfar sem mannauðsstjóri hjá Stofnfiski en hefur áður starfað meðal annars hjá utanríkisráðuneytinu og Íslandsbanka. Guðbjörg stundar meistaranám í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði við Háskólann í Reykjavík, hún hefur áður lokið MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands og BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Guðbjörg er varaformaður í stjórn Fram, Sjálfstæðisfélagi Hafnarfjarðar, hún er einnig í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, og situr í varastjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna. Þá situr Guðbjörg einnig í skólanefnd Menntaskólans í Reykjavík. Guðbjörg er fædd og uppalinn í Hafnarfirði og býr í dag á Norðurbakkanum ásamt eiginmanni sínum, Gísla Má Gíslasyni, og tveimur börnum þeirra sem eru 3 ára og 6 mánaða.