Kapítalisminn eirir engu. Hvergi í heiminum er matseld jafn háþróuð og í Frakklandi. Samt eru Frakkar sjúkir í skyndibitamat. Óvíða eru fleiri McDonald’s staðir en í Frakklandi. Alvöru veitingastaðir í París eru í vandræðum vegna þessa.
Ítalía er höfuðvígi kaffis í heiminum. Hvergi fær maður betra kaffi. Ítalir drekka stutta og snögga kaffibolla. Setja helst ekki mjólk út í kaffi nema þá á morgnana, og þá bara lítið af freyðandi mjólk.
Mjólk er hins vegar sullað út í kaffi í ómældum mæli í Bandaríkjunum. Sá ósiður hefur síðan borist víða um heim með bandarískum kaffikeðjum. Mælikvarðinn á hvort kaffi sé gott er að drekka það svart – semsé espresso. En kaffið utan Ítalíu er víða ódrekkandi ef mjólkin er ekki með. Hún dylur bragðið. Í staðinn finnur maður aðallega sætan mjólkurkeim, minnir helst á mjólkurkaffið sem börnum var gefið í íslenskum sveitum áður fyrr.
Maður skyldi halda að það síðasta sem þarf á Ítalíu sé Starbucks (Ítalir eru ekki jafn sólgnir í skyndimatinn og Frakkar). Og þess vegna bregður manni í brún þegar maður les að Starbucks keðjan ætli að hefja innrás á Ítalíu. Ítalía mun vera stærsti kaffimarkaður í heimi.
Starbucks ætlar að opna fyrsta staðinn í Mílanó í haust og hyggur svo á frekari landvinninga á Ítalíu. Manni finnst það einhvern veginn hámark tilgangsleysisins að flytja vont kaffi til Ítalíu.
Hér er svo tilbúin ljósmynd sem sýnir hvernig Starbucks mun líta út á Piazza Cordusio í Mílanó. Þessar alþjóðlegu keðjur vantar ekki fé til að kaupa upp bestu plássin í borgum. Og á endanum sitjum við uppi með hrútleiðinlega einsleitni. Borgir sem allar eru eins.