Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að þeir sem kalli á afsökunarbeiðni vegna veru Eyþórs Arnalds á fundi borgarstjórnar og þingmanna eigi bara vinna á vernduðum vinnustað.
Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata sendi í gær harðort bréf til allra borgarfulltrúa og þingmanna Reykjavíkurkjördæmanna tveggja þar sem hann fer fram á að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra bæðist opinberlega afsökunar á að hafa boðið Eyþóri, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, á fundinn í Höfða. Kallar Halldór Auðar einnig eftir því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tjái sig opinberlega um málið „og standi með formi fundarins í því skyni að endurreisa trúverðugleika hans,“ eins og segir í bréfinu.
Brynjar segir í pistli á Pressunni að Píratar séu viðkvæmari en aðrir og sé gjarnan misboðið þegar þeur eru gagnrýndir:
Þar sem Pírötum er ógerlegt að tjá einfalda hugsun í stuttu máli sendir borgarfulltrúi þeirra þingmönnum Reykjavíkur langt bréf um ekki neitt. Þar kemur þó fram að hann krefjist afsökunarbeiðni frá utanríkisráðherra vegna þess að með honum á fund borgarfulltrúa og þingmanna Reykjavíkur mætti oddviti sjálfstæðismanna í komandi borgarstjórnarkosningum,
segir Brynjar og bætir við:
Í taugaveiklunarástandi taka menn oft vanhugsaðar ákvarðanir. Ég hef setið þessa fundi ár eftir ár og oft hafa verið á þeim aðrir en kjörnir fulltrúar. Enginn hefur hingað til þurft áfallahjálp þess vegna. Þar sem oddvitanum var annt um velferð og andlega heilsu fulltrúa meirihlutans í borginni vék hann af fundinum þegjandi og hljóðalaust. Svo þegar menn gagnrýna eftirá þessa hallærislegu brottvísun er krafist afsökunarbeiðni. Svona menn eiga bara að vinna á vernduðum vinnustað.