Varnarmálaráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarviðbúnað og framlög til varnarmála, eflingu herstjórna NATO og stuðning við umbætur í Írak á tveggja daga fundi sínum sem lauk í Brussel í dag. Þá funduðu ráðherrarnir með varnarmálaráðherrum Finnlands og Svíþjóðar og utanríkismálastjóra ESB um vaxandi samvinnu NATO og ESB. Þetta kemur fram í tilkynningu:
„Bandalaginu hefur á skömmum tíma tekist að laga sig að breyttu öryggisumhverfi með auknum varnarviðbúnaði. Vægi Norður-Atlantshafsins er að aukast sem endurspeglast í því að meiri áhersla verður lögð á eftirlit og viðbragð á þessari lífæð milli Evrópu og Norður-Ameríku”,
sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra sem sat fundinn.
Á fundinum var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á herstjórnarkerfi bandalagsins þar sem gert er ráð fyrir stofnun tveggja nýrra undirherstjórna sem munu annars vegar fást við liðs- og birgðaflutninga og hinsvegar öryggismál á Atlantshafi.
Bandalagsríkin hafa verið að auka framlög til varnarmála jafnt og þétt til að mæta breyttum öryggishorfum og ræddu ráðherrarnir áætlanir um aukin framlög, fjárfestingar og virkari þátttöku í störfum bandalagsins.
Stuðningur bandalagsins við Írak var einnig til umræðu í ljósi þess að búið er frelsa stór landsvæði úr höndum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, einnig þekkt sem Daesh. Írösk stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð við umbætur í öryggis- og varnarmálum og er verið að undirbúa þjálfunarverkefni á vegum bandalagsins í nánu samstarfi við stjórnvöld og fjölþjóðaliðið sem berst gegn Daesh. Ísland hefur tekið þátt í þjálfun íraskra sérfræðinga í sprengjueyðingu og lagt til fjármagn í átakssjóði sem styðja við slíka þjálfun og er stefnt að því að halda þeim stuðningi áfram.
„Það skiptir máli að alþjóðasamfélagið styðji við uppbyggingu á svæðum sem búið er að frelsa undan Daesh. Við erum að beita okkur gegnum sjóði á vegum Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi og ætlum að leggja meira af mörkum með því að styðja við þjálfun í sprengjueyðingu á vegum NATO í Írak sem er mannúðarverkefni í eðli sínu. Þessi stuðningur er mikilvægur liður í að gera heimamönnum kleift að snúa aftur til síns heima eftir átökin”,
sagði Guðlaugur Þór.