Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, ritari Samfylkingarinnar, þjófkennir Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á Twitter í kvöld. Við frétt Vísis um frammistöðu Ásmundar í Kastljósinu skrifar Óskar Steinn:
„Á þjóðþingum allra nágrannalanda okkar segja þjófar af sér þegar kemst upp um þá. Ásmundur mætti gera það núna.“
Óskar Steinn hefur áður ratað í fréttir vegna ummæla sinna á Twitter, en hann sagði Agli Einarssyni til dæmis að „fokka“ sér, sem hann baðst síðar afsökunar á.
Margir hafa sett út á svör Ásmundar í Kastljósinu, meðal annars ummæli hans um 101 rottur:
„Viljum við hafa þingmenn af landsbyggðinni eða viljum við að allir séu 101 rottur?“
Ásmundur viðurkenndi eftir viðtalið, í samtali við Einar Þorsteinsson fréttamann, að hann hefði rukkað Alþingi um akstur meðan hann sinnti dagskrárgerð í þætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN, en hann hafði í þættinum svarið það af sér.
Ásmundi þótti einnig að RÚV hefði lagt sig í einelti með fréttaflutningi og vísaði sérstaklega til Helga Seljan, fréttamanns, í þættinum Vikulokin.
Þá viðurkenndi Ásmundur að hafa brotið reglur þingsins, sem segja að eftir 15.000 kílómetra akstur á árinu skuli þingmenn nota bílaleigubíla sem þingið leggi til, frá bílaleigu Akureyrar. Ásmundur kvaðst ósáttur við þá bílaleigubíla sem í boði væru og vildi gera samning við Alþingi um að nota sinn eigin bíl.
Á þjóðþingum allra nágrannalanda okkar segja þjófar af sér þegar kemst upp um þá. Ásmundur mætti gera það núna.https://t.co/BlNUuuNIvt
— Páskar Steinn (@oskasteinn) February 14, 2018