Meirihluti félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands, vilja að kjarasamningum verði sagt upp vegna forsendubrests. Þetta kemur fram á vef RSÍ.
Félagsmenn, sem tóku þátt í viðhorfskönnun, eru ósáttir við ákvarðanir kjararáðs á undanförnum árum sem þeir segja að stuðli að gríðarlegri misskiptingu í samfélaginu. Þá vilja þeir sjá breytingar á skattgreiðslum. málið er nú í höndum sameiginlegrar samninganefndar aðildarfélaga ASÍ, en endanlegrar niðurstöðu er að vænta í lok mánaðarins.
Frétt RSÍ:
Niðurstaða úr viðhorfskönnun um kjarasamninga
Rafiðnaðarsamband Íslands stóð fyrir viðhorfskönnun á meðal félagsmanna til þess að fá fram afstöðu þeirra til þess hvað eigi að gera við endurskoðun kjarasamninganna sem fram fer fyrir lok þessa mánaðar. Ljóst er að forsendur brustu fyrir ári síðan en ákveðið var á þeim tímapunkti að fresta ákvörðun til þessa árs. Var það samninganefnd ASÍ sem náði samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um þá frestun.
Meirihluti félagsmanna RSÍ vilja að kjarasamningum verði sagt upp núna enda skýr forsendubrestur. Helstu þættir sem félagsmenn eru ósáttir við er fyrst að nefna ákvarðanir kjararáðs á undanförnum árum og eru að stuðla að gríðarlegri misskiptingu í samfélaginu. Þessum úrskurðum verður að breyta! Þessi þáttur er lang veigamestur. Menn vilja jafnframt sjá breytingar á skattgreiðslum svo dæmi séu nefnd. Nú er verkefnið í höndum samninganefndar ASÍ um hver endanleg niðurstaða verður í samtökunum en unnið er að því að ná fram ásættanlegum breytingum. Endanlegrar niðurstöðu er að vænta í lok febrúar en eins og staðan er í dag þá er ákvörðunin í höndum sameiginlegrar samninganefndar aðildarfélaga ASÍ.