Nú er Hinrik prins, drottningarmaðurinn í Danmörku, horfinn á vit feðra sinna. Einu sinni vissum við Íslendingar allt um ráðahag Margrétar Þórhildar og Hinriks. Það var þegar við fylgdumst stöðugt með frægðarfólkinu í Danmörku í gegnum dönsku blöðin.
Þetta voru vikublöð eins og Hjemmet, Familje Journal og Alt for damerne. Mig minnir að þau hafi komið í búðirnar á Íslandi á þriðjudögum, líklega hafa þau verið gefin út fyrir helgina í Danmörku. Þá var sett upp tilkynning sem mátti lesa fyrir framan bóka- og blaðabúðir, það stóð einfaldlega: Nýdönsk.
Íslendingar vissu allt um Margréti prinsessu frá unga aldri, systur hennar Önnu Maríu sem giftist Konstantín konungi Grikklands – sem Grikkir hentu síðar út í hafsauga – og leikara og revíustjörnur eins og Helle Virkner-Kragh og Dirch Passer.
Á þessum tíma var heldur ekki mikill vandi að kenna dönsku, flestir Íslendingar kunnu talsvert í málinu eftir blaðalesturinn, börnin lásu auðvitað Andrés Önd. Nú er nánast ómögulegt að koma dönsku inn í hausinn á íslenskum ungmennum, enda hafa þau enga snertingu við tungumálið.
En aftur að Hinrik. Það einkenndi hann lengi hvað hann var vansæll með hlutskipti sitt. Honum fannst Danir ekki virða sig. Sambandið milli hans og dönsku þjóðarinnar var frekar stirt. Og undir andlátið sagðist hann ekki vilja láta grafa sig með drottningunni í dómkirkjunni í Hróarskeldu, heldur suður í Frakklandi.
Líklega byrjaði það með umræðunni sem ég man eftir þegar ég var barn. Þá var mikið um það rætt að Hinrik væri ekki alvöru aðalsmaður. Kannski þótti heldur ekki jafneftirsóknarvert þá og áður að tengjast kóngaættum í smáríkjum, ekki eins og á tímanum þegar prinsar og prinsessur af dönskum ættum voru út um allt í konungshöllum Evrópu – allt austur til Rússlands. Það var erfiðara að finna nógu fín mannsefni þegar drottningin tilvonandi var að vaxa úr grasi.
Hinrik var ágætlega menntaður maður og kúltíveraður, hafði stundað nám við Sorbonne-háskóla, talaði austurlandamál eftir veru sína í Vietnam og Hong-Kong og lærði þau reyndar líka í háskóla. Hann var mjög góður píanóleikari, orti kvæði, stundaði höggmyndalist og vínrækt. Hann hafði barist í Alsírstríðinu. Áður en hann kvæntist Danaprinsessu var hann ritari í franska sendiráðinu í London, hann hefði líklega getað orðið sendiherra. Að mörgu leyti var hann fremri dönsku fjölskyldunni sem hann giftist inn í.
En Dönum fannst lítið í hann varið. Þeir fyrirgáfu honum ekki að vera ekki af nógu fínum aðalsættum. Hann var af fjölskyldu sem kallast Laborde de Monpezat frá hinu fræga vínhéraði Gironde. Með ættarnafninu fylgdi greifanafnbót, en hún var ekki ekta, eins og mátti komast að í Almanach de Gotha sem er bókin um það hverjir eru alvöru aðall.