Þingmenn Framsóknarflokksins, með Willum Þór Þórsson í fararbroddi, hafa lagt fram þingsályktunartillögu. Markmið hennar er að fjármála – og efnahagsráðherra skipi starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna á að horfa sérstaklega til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands en jafnframt skal meta hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti.
Þessi tillaga er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir:
,,Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.“
Samtök atvinnulífsins gagnrýndu á dögunum launavísitöluna og sögðu hana ekki réttan mælikvarða á launabreytingar í landinu, en Hagstofan svaraði þeirri gagnrýni og vísuðu henni á bug.
Willum Þór segist ekki hafa farið í kjölinn á launavísitölunni í þessu tilliti, en það þurfi þó að skoða nánar.
Aðspurður hvort skipun starfshópsins væri skref í átt að afnámi verðtryggingarinnar sagði Willum:
„Ég er á þeirri skoðun og hef alltaf verið, að þegar kemur að húsnæðislánum eigum við ekki að verðleggja þau á grundvelli neysluvísitölu. Ég vona að málið verði fundinn farvegur, enda talað um það í stjórnarsáttmálanum. Við náum vonandi til lands í því, en byrjum á þessu í bili.“