Skotin eru byrjuð að fljúga á milli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Eyþórs Arnalds, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins. Dagur var viðmælandi RÚV í gærkvöldi, þar sem hann sagði vanta verktaka og mannskap til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði, en í skýrslu Íbúðarlánasjóðs segir að 17.000 íbúðir vanti til að mæta þörf og uppsöfnuðum skorti, en Dagur hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki brugðist nægilega fljótt og vel við húsnæðisvandanum.
Eyþór Arnalds deildi frétt RÚV á Twitter og skaut létt á Dag í leiðinni:
Samt er byggt í Kópavogi … https://t.co/Lekym6naCa
— Eythor Arnalds (@eythorarnalds) January 31, 2018
Dagur borgaði fyrir sig í morgunþætti Rásar 2 í morgun. Þar talaði hann um samgöngumál og mikilvægi borgarlínu, en Eyþór er henni mótfallinn.
Sagði Dagur að hugmyndir Eyþórs bæru vott um skammsýni:
„Þess vegna finnst mér mikil skammsýni og eiginlega alveg galið, hvort sem menn eru að koma nýir inn í pólitík eða búnir að vera lengi í pólitík, að segja að lausnin á því að koma 70 þúsund manns fyrir á höfuðborgarsvæðinu sé að bæta við nýjum hverfum austan við eða sunnan við núverandi byggð.“
Þá sagði Dagur um stefnu Eyþórs, að auka við álagstíma Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, vera árás á lífsgæði fólks:
„Þessi stefna sem Eyþór hefur boðað á fyrstu metrunum, og nú ætla ég auðvitað að gefa honum svolítinn tíma til að setja sig inn í þetta, er einhver alvarlegasta árás á umferðarmál og lífsgæði fólksins í Grafarvogi, Breiðholti, Árbæ, Grafarholti, Úlfarsárdal, en líka Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ, sem ég man eftir.“