Helga Kristín Haug Jónsdóttir, sem var oddviti Miðflokksins á Akranesi, er hætt í flokknum. Ástæðan er framkoma sexmenninganna í Klaustursupptökunum, sem hún segir einkennast af kvenfyrirlitningu og níðs í garð minnihlutahópa. Segist hún miður sín og skorar á hlutaðeigandi að segja af sér þingmennsku:
„Ég er bara miður mín yfir hegðun manna og umræðunni síðustu daga. Eftir að hafa hlustað á upptökur af svokallaða Klausturs máli þá get ég ekki annað en skorað á þá sem eiga hlut að máli að segja af sér þingmennsku og axla ábyrgð. Þetta er ekki það sem ég stend fyrir, kvenfyrirlitning og níð á minnihlutahópa. Þið ættuð að skammast ykkar fyrir talsmáta ykkar. Axlið ábyrgð strax. Svona eiga kjörnir fulltrúar ekki að haga sér. Það er til fullt af góðu fólki sem getur tekið við af ykkur. Þó þið haldið annað.“
Helga segist sjálf hafa beðið skaða vegna málsins, sem og allir sem kenni sig við Miðflokkinn:
„Ég sé engar yfirbætur með hegðun ykkar. Ég persónulega og við öll höfum skaðast. Við lögðum mannorð okkar við þennan flokk og þessa forustu og ekki má gleyma fólkinu sem kaus okkur. Svo er hegðun manna á alþingi er orðin þannig að allir ættu að líta í eigin barm. Virðing á alþingi hverfur með þessum hætti og ekki var hún nú mikil fyrir. Þið þingmenn eigið að vinna fyrir fólkið í landinu og vera fyrirmynd þess. ekki sitja í skotgröfunum og níða hvort annað. Og ekki batnar það þegar Borgarleikhúsið býður fólki ókeypis að koma og hlæja að gerendum og þolendum þessa máls. Er þetta það sem við ætlum að kenna börnunum okkar í komandi framtíð ? Ég undirrituð segi hér með skilið við Miðflokkinn.“
Áður hafði Vilborg Hansen, varamaður í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd Miðflokksins, sagt sig úr flokknum vegna Klaustursmálsins.