Könnun var gerð 3. og 4. desember af Zenter fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Samkvæmt niðurstöðunum myndi Miðflokkurinn fá 4,3 prósent atkvæða í dag og fengi því ekki mann kjörinn á þing. Fylgi flokksins mælist 1,5 prósentustigum hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Ef miðað er við efri vikmörk mælingarinnar fengi flokkurinn jöfnunarþingmenn en engan kjördæmakjörinn þingmann.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 21,4 prósent og Samfylkingar 20,8 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist um 4 prósentustigum minna en í kosningunum á síðasta ári en Samfylkingin bætir við sig tæplega 9 prósentustigum frá kosningum. Píratar mælast með 5 prósentustigum meira fylgi en í kosningunum og mælast nú með 14,4 prósent.
VG mælist með 12,7 prósent en fékk tæplega 17 prósent í kosningunum. Viðreisn sækir í sig veðrið og mælist með 9,1 prósent en fékk 6,7 prósent í kosningunum. Framsóknarflokkurinn tapar fylgi, mælist nú með 8,5 prósent en fékk 10,7 prósent í kosningunum. Flokkur fólksins tapar fylgi, mælist nú með 5,7 prósent en fékk 6,9 í kosningunum.