Aldrei hefur hlutfall landsmanna í þjóðkirkjunni verið lægra. Þann 1. desember síðastliðinn voru 232.672 skráðir í þjóðkirkjuna, eða 65,4 prósent landsmanna og hafði þeim fækkað um rúmlega 2400 frá fyrra ári. Alls eru 122,948 utan þjóðkirkjunnar. Kjarninn greinir frá.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað um rúmlega 20 þúsund manns, en á meðan hefur verið hröð fjölgun landsmanna, alls 36 þúsund manns, sem virðist ekki skila sér til þjóðkirkjunnar. Alls voru 92,2 prósent landsmanna í þjóðkirkjunni árið 1992.
Áður fyrr voru öll nýfædd börn skráð í það trúfélag sem móðir barnsins var skráð í. Þar af leiðandi var meirihluti landsmanna skráður sjálfkrafa í þjóðkirkjuna án vitundar og samþykkis. Þessari reglu var fyrst breytt árið 2013, nú þurfa báðir foreldrar að vera skráðir í sama trúfélag, svo barn þeirra skráist sjálfkrafa í sama trúfélag. Ellegar skráist barnið utan trúfélaga.
Þjóðkirkjan er á fjárlögum og fær um 5,5 milljarða króna frá skattborgurum landsins árið 2018. Í stjórnarskrá nýtur þjóðkirkjan stuðnings og verndunar ríkisvaldsins umfram önnur trúfélög. Þá er enn í gildi kirkjujarðarsamkomulagið frá 1997 sem fól í sér að ríkið tók yfir um 600 kirkjujarðir, gegn því að greiða laun presta og starfsmanna Biskupsstofu.
Frá því að samkomulagið tók gildi, árið 1998, hefur ríkið greitt þjóðkirkjunni samtals 42 milljarða króna, þar af eru um 40 milljarðar laun til presta, eða um tveir milljarðar á ári.
Fjöldi presta hér á landi telja um 140 manns.
Þá virðist áhugi turtildúfna á að ganga í hnapphelduna innan þjóðkirkjunnar fara minnkandi, þar sem yfir helmingur þeirra sem giftu sig í nóvember gerði það hjá sýslumanni, í stað prests þjóðkirkjunnar, sem virðist þróunin á síðustu árum. Um aldamót var hlutur þjóðkirkjunnar í hjónavígslum 71 prósent, en er innan við 50 prósent árið 2018.
Þá hefur meirihluti almennings kallað eftir aðskilnaði ríkis og kirkju nánast samfleytt frá árinu 1993, í könnunum þess efnis. Í október voru 54 prósent Íslendinga hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.
Í sömu könnun kom fram að þriðjungur þjóðarinnar bæri mikið traust til þjóðkirkjunnar, sem var fækkun um tíu prósentustig milli ára. Alls 39 prósent sögðust bera lítið traust til þjóðkirkjunnar.
Ánægjan með störf biskups hefur aldrei verið minni samkvæmt könnun Gallup. Aðeins 14 prósent sögðust ánægð með störf biskups, en 44 prósent sögðust óánægð.