fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Ellert fékk ekki framgöngu í Sjálfstæðisflokknum og sat óháður á þingi: „Það er enginn annars bróðir í leik“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 24. desember 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellert B. Schram kom nýverið inn á þing sem varamaður, 79 ára að aldri. Hann hefur verið inni og úti af þingi nú í tæpa hálfa öld sem er met. Fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðan Samfylkinguna en um tíma var hann í raun óháður. Ellert er elsti Íslendingurinn sem hefur setið á þingi. Ellert ritstýrði DV ásamt Jónasi Kristjánssyni á stórveldistíma blaðsins og saman leiddu þeir baráttuna fyrir frjálsum og óháðum fjölmiðlum. Ellert komst fyrst í sviðsljósið sem fyrirliði og máttarstólpi gullaldarliðs KR og íslenska landsliðsins. Síðar leiddi hann bæði Knattspyrnusambandið og Íþróttasambandið.

Ellert er lögfræðingur frá HÍ og starfaði á árunum 1966–1971 sem skrifstofustjóri Borgarverkfræðings í Rvík. Ellert er ekki hættur að láta gott af sér leiða því í dag er hann formaður Félags eldri borgara. DV ræddi við Ellert um það sem hæst ber á þessum langa og fjölbreytta ferli.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Fékk ekki framgöngu í flokknum

Eftir ákveðinn tíma á þingi fór Ellert að hugsa um frekari frama innan þingliðsins og fannst sem hann hefði unnið sér það inn og hefði stuðning kjósenda til þess. Það gekk hins vegar ekki eftir eins og hann vildi.

„Það er enginn annars bróðir í leik,“ segir hann. „Allir voru að leita að sínum eigin farvegi. Þegar kom að kosningum og menn fór að skipta með sér verkum var hver að hugsa um sjálfan sig, sem er kannski ekkert óeðlilegt í slíkum baráttuhóp. Mér fannst að ég ætti að fá meiri frama, kannski af því að ég var mikill keppnismaður og vildi vera í liðinu,“ segir Ellert og brosir.

Ellert sat samfellt á þingi til ársins 1978. Í seinni alþingiskosningunum það árið var mikil kergja eftir prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík og víðar. Þá höfðu fulltrúar flokksins í verkalýðshreyfingunni fengið verri útkomu en þeir bjuggust við. Til að halda friðinn innan flokksins bauðst Ellert að fara úr fimmta sætinu í það áttunda. Þessu var hampað sem miklum drengskap hjá Ellert en olli því hins vegar að hann missti þingsætið.

Þá tók hann við ritstjórastólnum hjá síðdegisblaðinu Vísi en þar hafði hann starfað sem blaðamaður á sjöunda áratugnum. Árið 1981 voru Vísir og Dagblaðið sameinuð í DV og Ellert tók við ritstjórastólnum ásamt Jónasi Kristjánssyni. Hann var þó ekki hættur afskiptum af stjórnmálum. Árið 1983 bauð Ellert sig aftur fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir alþingiskosningar. Þar endaði hann í öruggu fjórða sæti.

„Ég gerði það í raun og veru til að sanna mig og átta mig á því hvar ég stæði í þinginu og pólitíkinni allri. Þegar ég kom inn í þingflokkinn bauð ég fram krafta mína sem ráðherra eða formaður þingflokksins. Hvorugt var samþykkt. Þá gekk ég út og hætti að mæta á fundi hjá flokknum. Ég sat á þingi til ársins 1987 af því að það var búið að kjósa mig. Ég tók til málanna og hafði afskipti af ýmsum frumvörpum en var ekki virkur í mínum gamla flokki. Í rauninni var ég óháður þingmaður.“

Var ekki reiði í þinn garð af hálfu Sjálfstæðismanna?

„Ég veit ekkert um það, ég talaði ekkert meira við þá,“ segir Ellert og hlær. „Geir Hallgrímsson var formaður á þessum tíma og ég taldi hann vera mikinn vin minn. Við höfðum unnið vel saman hjá Reykjavíkurborg áður. Ég held að Geir hafi sjálfur verið í vandræðum og ekki haft kraft eða tíma til að hjálpa mér. Hann hafði nóg með sjálfan sig. Geir var yndislegur maður en stundum allt of kurteis. Og svo lenti hann í bardaga gegn Gunnari Thoroddsen.“

Urðu vinslit hjá ykkur?

„Nei, nei. Ég fór mína leið og hann sína.“

Hvernig fór það saman að vera ritstjóri dagblaðs og þingmaður?

„Ég var með annan fótinn á þinginu og hinn á blaðinu. Skrifaði til dæmis leiðarana niðri í þingi. Þetta hafði þau áhrif á mig að sjóndeildarhringurinn stækkaði. Þegar maður er virkur í stjórnmálaflokki og í baráttu um að komast til valda þá verður maður að passa sig að vera á réttri línu. En eftir að ég fór að skrifa fyrir blað sem var frjálst og óháð, þá þurfti ég að skoða alla atburði í stærra ljósi. Ég þurfti að taka tillit til þeirra sem voru ekki endilega sammála mér.“

Hvernig var samstarfið við Jónas?

„Jónas var frábær penni og snillingur. Hann sagði það sem honum sýndist, hvort sem það var í leiðurum eða í samtali. Okkur kom meira og minna vel saman. Ég held að sameining Dagblaðsins og Vísis hafi styrkt stöðuna og verið áfram í þeim anda sem Jónas hafði skapað. Blaðið var frjálslynt og hafði enga þræði til neinna sem sögðu okkur fyrir verkum. Þetta var frjálst og við fengum að skrifa það sem okkur sýndist.“

 

Útvörpuðu úr kjöllurum

Ellert og Jónas störfuðu saman í fimmtán ár og skiptu með sér verkum. Jónas sá mestmegnis um morgnana og Ellert síðdegið. Ellert skrifaði einnig laugardagsgreinar um margra ára skeið. Blaðið rokseldist og fór upp fyrir Morgunblaðið á tímabili.

Dagblaðið og síðar DV voru á þessum tíma leiðandi í baráttunni fyrir frjálsri og óháðri blaðamennsku. Einnig fyrir afnámi ríkiseinokunar á ljósvakamiðlum. Þetta var eitt af baráttumálum Ellerts á þingi og þegar starfsmenn RÚV fóru í verkfall árið 1983 gripu hann, Jónas og eigendur blaðsins, Sveinn Eyjólfsson og Hörður Einarsson, til beinna aðgerða. Þá settu þeir upp eigin útvarpsstöð, Fréttaútvarpið.

„Við settum upp stöðvar og hlupum með þetta út um allan bæ,“ segir Ellert og hlær. „Við tókum upp í einhverjum kjöllurum og læddumst með upptökur á milli húsa og hverfa. Svo var það mjög dramatískt þegar lögreglan kom og braust inn á skrifstofuna. Við vissum að lögreglumenn væru á leiðinni og ég steig þá fram og hélt mjög alvörugefna ræðu. Ég talaði nú ekki vel um þá, lögregluna og meirihlutann í þinginu. En einnig um hve mikilvægt það væri að til væri fleiri en ein útvarpsstöð. Við vissum að það sem við vorum að gera var ólöglegt en létum það yfir okkur ganga. Ég fékk meira að segja dóm í héraði fyrir þetta. En honum var reyndar vísað frá í Hæstarétti.“

Eftir þetta fór Ellert í þingið og hélt langa og innblásna ræðu um málið.

„Hún bar árangur. Ragnhildur Helgadóttir var þá nýorðin menntamálaráðherra og hún tók undir margt af því sem ég sagði og lét á það reyna að breyta lögunum um ríkiseinokun.“

Ein minnisstæðasta upplifun Ellerts hjá DV var á erlendri grundu. Árið 1990 lýstu Eystrasaltsríkin yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum og Íslendingar voru fyrsta ríkið til að viðurkenna það. Ellert fór þá út til að kynna sér aðstæður.

„Á tímabili leit út fyrir að Rússarnir myndu hefja innrás. Jón Baldvin Hannibalsson stóð sig ákaflega vel í þessu máli og bauð okkur fulltrúum fjölmiðla út með sér. Við ferðuðumst frá einu landi til annars. Það var búið að hlaða upp sementspokunum og stilla upp byssum því að þeir bjuggust við að Rússarnir kæmu þá þegar.“

Varstu smeykur?

„Nei, ég var það nú ekki, en mér fannst þetta ógnvænlegt og það hafði mikil áhrif á mig að upplifa þetta ástand.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur