fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Ellert þurfti að fara á sjóinn til að drýgja þingfararkaupið – Var með Bjarna Ben skömmu fyrir brunann á Þingvöllum

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 22. desember 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellert B. Schram kom nýverið inn á þing sem varamaður, 79 ára að aldri. Hann hefur verið inni og úti af þingi nú í tæpa hálfa öld sem er met. Fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðan Samfylkinguna en um tíma var hann í raun óháður. Ellert er elsti Íslendingurinn sem hefur setið á þingi. Ellert ritstýrði DV ásamt Jónasi Kristjánssyni á stórveldistíma blaðsins og saman leiddu þeir baráttuna fyrir frjálsum og óháðum fjölmiðlum. Ellert komst fyrst í sviðsljósið sem fyrirliði og máttarstólpi gullaldarliðs KR og íslenska landsliðsins. Síðar leiddi hann bæði Knattspyrnusambandið og Íþróttasambandið.

Ellert er lögfræðingur frá HÍ og starfaði á árunum 1966–1971 sem skrifstofustjóri Borgarverkfræðings í Rvík. Ellert er ekki hættur að láta gott af sér leiða því í dag er hann formaður Félags eldri borgara. DV ræddi við Ellert um það sem hæst ber á þessum langa og fjölbreytta ferli.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

 

Á sjó til að drýgja þingfararkaupið

Í gegnum allt lífið hefur Ellert tekið að sér leiðtogahlutverk og trúnaðarstöður af ýmsum toga. Hann var formaður Stúdentaráðs, SUS, KSÍ, ÍSÍ, var ritstjóri tímarita og dagblaða, fyrirliði KR og íslenska landsliðsins svo eitthvað sé upptalið. Ellert segir hins vegar að hann hafi ekki alltaf sóst eftir öllum þessum stöðum heldur hafi margoft verið leitað til hans um þátttöku og forystu.

„Skýringin er að einhverju leyti sú að ég er félagslyndur að eðlisfari. Mér þykir gaman að umgangast fólk og taka á málefnum sem skipta máli. Einhverra hluta vegna hefur fólk talið að ég gæti gert gagn með að taka við formennsku og ég held sjálfur að þetta hafi gengið ágætlega,“ segir Ellert og brosir. „Faðir minn var Björgvin Schram sem var formaður KSÍ í fjórtán ár. Kannski er þetta að einhverju leyti í genunum. Og svo var Ellert, afi minn, skipstjóri á seglbátum.“

Þú varst rúmlega þrítugur þegar þú varst kjörinn inn á þing, árið 1971. Hvernig var fyrir ungan mann að stíga þarna inn?

„Ég var yngstur og nú er ég elstur,“ segir Ellert og hlær. „Þetta var auðvitað mjög spennandi. Ég var kornungur maður og sat með miklum höfðingjum á þingi. Mönnum sem ég bar mikla virðingu fyrir. Ég verð að játa að mér fannst til þess koma að vera á þingi og reyndi að standa mig. Ég tók út þroska og auðvitað varð mér á í sumum málum. En þrátt fyrir ungan aldur og axarsköft var ég kosinn aftur árið 1974.“

Ellert minnist sérstaklega jómfrúrræðu sinnar sem hann vildi þó helst gleyma.

„Í fyrstu ræðunni talaði ég gegn því að Ísland samþykkti að Kínverjar fengju aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ég sé nú alltaf eftir að hafa verið að skipta mér af því,“ segir hann kíminn. „Þetta var sennilega full unglingslegt af mér.“

Hvernig var þingið þá miðað við í dag?

„Þetta voru nánast allt saman karlar. Það voru aðeins tvær konur þarna inni. Mikið til karlar sem voru búnir að vera lengi á þingi. Þeir voru líkt og heima hjá sér og vinir hver annars, þótt þeir hafi verið að rífast í ræðustól. Því var andrúmsloftið þarna inni nokkuð gott. Menn báru virðingu hver fyrir öðrum.“

Í dag er hávær umræða um laun og sporslur alþingismanna og annarra embættismanna. Svo miklar hækkanir hafa þeir fengið að það er talið ógna kjaraviðræðum. Öldin var önnur þegar Ellert kom inn á þing í fyrsta sinn.

„Ég var með eiginkonu og fjögur börn og hún þurfti að vera heima til að sinna þeim. Launin voru ekki meiri en svo, að ég þurfti á þessum árum að fara á sjóinn tvö sumur til að við ættum í okkur og á.“

 

Fyrirmyndirnar, þorskastríðin og gengisfellingarnar

Áttir þú þér fyrirmyndir í stjórnmálunum?

„Ég á kannski ekki neinar fyrirmyndir en mér fannst margir þeirra vera flottir og vildi vera eins og þeir. Ég man eftir Eysteini Jónssyni, Hannibal Valdimarssyni, Jóhanni Hafstein, Gunnari Thoroddsen og Lúðvík Jósefssyni svo ég nefni nokkra alþingismenn. Síðan kom Steingrímur Hermannsson og næsta kynslóð. Ég gæti nefnt marga aðra þing- og forystumenn, sem eru eftirminnilegir. Mér fannst ég njóta góðs af þessum félagsskap og þroskaðist af þessu.“

Snemma á sínum pólitíska ferli kynntist Ellert Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra sem lést í voveiflegum eldsvoða ásamt eiginkonu sinni og barnabarni á Þingvöllum, sumarið 1970. Ellert, sem þá var formaður SUS, var með Bjarna skömmu fyrir andlátið.

„Við sigldum saman norður á Siglufjörð til að vera viðstaddir héraðsmót Sjálfstæðisflokksins. Eftir það þurfti ég að fljúga beint suður til að spila landsleik við Dani á Laugardalsvellinum en Bjarni fór þá á Þingvelli. Hann ætlaði síðan að sækja mig og við ætluðum að fara vestur í Stykkishólm saman um næstu helgi. En þá fékk ég símhringingu frá Alberti Guðmundssyni um morguninn, sem sagði mér hvað hafði gerst.“

Ári síðar var Viðreisnarstjórnin fallin og þorskastríðið í algleymingi. Ellert segir að mikill tími hafi farið í að takast á við landhelgismálin. Annað mál var rétturinn til fóstureyðingar og var Ellert sjálfur í þeirri nefnd sem leiddi þá lagabreytingu í gegn. Mestur tíminn hafi þó farið í að kljást við efnahagsmálin sem voru í algerri óreglu. Verðtrygging var ekki til staðar og peningarnir þurrkuðust upp á milli ára.

„Þetta var skelfilegur tími. Það voru gengisfellingar á gengisfellingar ofan. Um leið og laun voru hækkuð var gengi fellt. Sérstaklega eftir hækkanir hjá verkafólki og sjómönnum. Á tíma stjórnar Gunnars Thoroddsen var gengið fellt um og yfir hundrað prósent.“

Ellert segir að öfgarnar hafi verið miklar á þessum tíma.

„Þetta var það sem hafði mest áhrif á líf fólks og virkaði á báða bóga. Ég keypti mér kjallaraíbúð á 390 þúsund krónur árið 1962. Þegar ég stækkaði við mig hafði það engin áhrif því að skuldirnar hurfu. Ég keypti þrisvar eða fjórum sinnum nýja íbúð og þurfti aldrei að hafa neinar áhyggjur af því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?