Í gær hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu Miðflokksfjórmenningana frá Klaustri bar um vitnaleiðslur og gagnaöflunar vegna hljóðritunar Báru Halldórsdóttur. Hafði Reimar Pétursson, lögmaður fjórmenninganna, óskað eftir myndbandsupptökum eftirlitsmyndavéla frá Alþingi og Dómkirkjunni, þar sem þingmenn Miðflokksins héldu að Bára hefði átt sér samverkamenn.
Auður Tinna Aðalbjarnadóttir,verjandi Báru, segir við Fréttablaðið í dag að von hafi verið á þessari niðurstöðu, en málinu sé ekki endilega lokið. Stjórn Persónuverndar fundar í dag þar sem ákveðið verður hvort málið verður sótt áfram, en þingmenn geta einnig kært niðurstöðuna til Landsréttar, eða farið beint í að höfða einkamál. Einnig geta þeir kært málið til lögreglu.
Auður telur að málinu sé ekki lokið:
„Við metum það heldur líklegra vegna þess að beiðnin til héraðsdóms byggði ekki á því að þetta væri nauðsynlegt til þess að ákveða hvort það ætti að fara í mál heldur að það væri stefnan að fara í mál og til þess að ákveðin gögn færu ekki til spillis væri verið að biðja um þau núna. Uppleggið þeirra hljómaði eins og þeir væru búnir að gera upp hug sinn.“
Ekki hefur náðst í Reimar Pétursson eða þingmenn Miðflokksins vegna málsins.