fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Braggaskýrslan birt: Bragginn gleymdist innan annarra verkefna – Sökinni skellt á Hrólf

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 20. desember 2018 13:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Braggaverkefnið í Nauthólsvík gleymdist innan stærri og meira áberandi verkefna. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svokallaða á Nauthólsvegi 100. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant, hlítni við lög,  innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg. Í skýrslunni er sökinni á verkefninu skellt að mestu leyti á Hrólf Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar:

Hrólfur Jónsson var lykilmaður í svokölluðu Braggamáli og viðurkenndi að bera ábyrgð á því máli. Hann hefur fullyrt að Dagur B. Eggertsson hafi ekki haft neina vitneskju um málið.

„Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sinnti ekki sinni stjórnendaábyrgð með því að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn svo og borgarráð. Svo virðist verasem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og týnst meðal stærri og meira áberandi verkefna,“ segir í skýrslunni. Þar segir einnig: „Eftirlit með verkefninu var að flestu leyti ófullnægjandi og svo virðist sem verkefnið hafi lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra en þess þrönga hóps sem annaðist það.“

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, SEA, fær á baukinn í skýrslunni.

„Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hefur frá upphafi verið býsna laust í reipum, skrifstofunni var ætlað að vinna hratt að því að afla borginni tekjutækifæra og það hefur komið niður á skipulagi og innra eftirliti. Jafnvel hefur það orðið til þess að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefur ekki farið að settum leikreglum, til dæmis hvað varðar innkaup. Fyrrum skrifstofustjóri hafði þann stjórnunarstíl að úthluta verkefnum til starfsmanna sem síðan lögðu metnað í að leysa þau sjálfstætt og hann hvorki hafði eftirlit með framvindu verkefnanna né kallaði eftir upplýsingum um stöðu þeirra.“

Þar segir einnig:

„Við framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 var ekki farið eftir reglum og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamnings milli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og Umhverfis- og skipulagssviðs en hann kveður skýrt á um ábyrgð og hlutverk hvors aðila og þar segir meðal annars að Umhverfis- og skipulagssvið skuli annast verklegar framkvæmdir.“

DV fjallaði ítarlega um braggamálið í haust og birti alla reikningana sem tengdust verkefninu. Málið var í sent til skoðunar til innri endurskoðunar borgarinnar í október, í kjölfarið neituðu borgarfulltrúar og starfsmenn borgarinnar að ræða málið frekar. Um er að ræða þrjú hús í Nauthólsvík sem Reykjavíkurborg greiddi fyrir og leigir Háskólanum í Reykjavík. Upphaflegt kostnaðarmat árið 2015 var upp á 158 milljónir en í haust hafði verkefnið kostað yfir 400 milljónir. Verkefnið var harðlega gagnrýnt, þá sérstaklega vegna einstakra kostnaðarliða, þar á meðal höfundarréttarvarðra stráa sem kostuðu borgarbúa 1,4 milljón. Sambærileg strá má finna um allt land.

Blaðamaður DV er í ráðhúsinu og mun reyna að ná tali af skýrsluhöfundum, borgarstjóra og borgarfulltrúm í beinni útsendingu hér á DV.

 

Í tilkynningu frá borginni segir að úttektin á framkvæmdum við Nauthólsveg 100 sé ítarleg og taki á öllum þáttum verkefnisins, bæði aðdraganda framkvæmdanna, hvernig að þeim var staðið og þeim alvarlegu frávikum sem urðu. Ljóst er að margt fór úrskeiðis í málinu sem kallar á viðbrögð til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Þau viðbrögð þurfa að tryggja að áhætta á slíku sé í lágmarki og að ef frávik verði, þá berist upplýsingar sem fyrst til borgarráðs svo hægt sé að grípa inn í í samræmi við samþykkt verklag. Á fundi borgarráðs var samþykkt að koma ábendingum innri endurskoðunar í skýrt ferli. Þar var borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa falið að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum í skýrslu IE og tilgreint að þau viðbrögð taki til allra þátta málsins.

 

Hér fyrir neðan er samantekt á helstu niðurstöðum skýrslunnar.

 

•      Í skýrslunni kemur fram að frumkostnaðaráætlun fyrir Nauthólsveg 100 hafi verið gerð sumarið 2015. Matið hafi verið byggt á lauslegri ástandsskoðun, eins og almennt er gerð þegar frumkostnaðaráætlanir eru gerðar. Þegar útfærsla og hönnun lá fyrir hefði átt að gera kostnaðaráætlanir I og II samkvæmt reglum um mannvirkjagerð. Það var ekki gert í þessu tilviki. Mikillar óvissu gætir í endurbyggingu gamalla húsa og í því ljósi hefði þurft að nota meiri tíma til að undirbúa verkið og gera kostnaðaráætlanir miðað við þær. Lagt var upp með lágstemmda hugmynd um stúdentabragga með kaffiaðstöðu sem þróaðist í fullbúinn veitingastað og sérhannaða lóð með mun meiri kostnaði en gert var ráð fyrir í upphafi.

•      Þá kemur fram að ekki rétt sé að bera frumkostnaðaráætlun upp á 158 m.kr. við raunkostnaðinn sem var 425 m.kr. Þegar frumkostnaðaráætlunin var gerð lá ekki fyrir sú útfærsla sem nú er á byggingunum. Breytingar á upphaflegum hugmyndum eru metnar á 94 m.kr. kostnaður vegna verndunarsjónarmiða 71 m.kr. og síðan 21 m.kr. vegna hreinsunar út úr húsunum og umsýslukostnaðar innan borgarkerfisins. Frumkostnaðaráætlunin að viðbættum ofantöldum liðum gerir því samtals 344 m.kr.

•      Samningur var gerður við Grunnstoð, dótturfélag Háskólans í Reykjavík, um leigu á fasteignunum. Samningurinn er skýr og tekur á öllum nauðsynlegum atriðum, en í honum er kveðið á um afhendingu húsnæðisins tæpu ári eftir undirritun. Innheimta húsaleigu hófst í júlí 2018 og er hún í samræmi við samninginn eða 670.125 kr. á mánuði. Við afgreiðslu málsins í borgarráði var leigufjárhæð samþykkt og gert ráð fyrir því að meðgjöf borgarinnar með samningnum yrði 41 m.kr. á 40 ára leigutíma. Miðað við þær forsendur sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar gaf sér 2015 og raunkostnað framkvæmdanna verður meðgjöf Reykjavíkurborgar til Háskólans í Reykjavík/Grunnstoðar 257 m.kr. en leigugreiðslur þyrftu að vera um 1.697 þús. kr. á mánuði til að núvirði verkefnisins verði jákvætt.

•      Engir skriflegir samningar voru gerðir varðandi verkefnið, að undanskildum leigusamningi við Háskólann í Reykjavík.. Ekki var sóst eftir ráðgjöf innkaupadeildar og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Lög um opinber innkaup voru hinsvegar ekki brotin. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþága frá innkauparáði varðandi það.

•      Einn af arkitektum breytinganna var ráðinn sem verkefnisstjóri á byggingarstað en það er ekki talið heppilegt með tilliti til hagsmunaárekstra. Meðal hlutverka arkitektsins var að hafa eftirlit með verktökum og staðfesta reikninga þeirra en þar sem viðvera hennar á byggingarstað var takmörkuð er óvíst að eftirlitið hafi verið jafnmikið og það hefði þurft að vera. Verkefnisstjóri á skrifstofa eigna og atvinnuþróunar virðist hafa haft lítið eftirlit með framkvæmdunum sem hann þó bar ábyrgð á gagnvart sínum yfirmanni.

•      Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar en það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Heildarkostnaður nú í desember er kominn í 425 m.kr. en úthlutað hefur verið heimildum að fjárhæð 352 m.kr. Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda.

•      Upplýsingar til borgarráðs voru ekki ásættanlegar en dæmi eru um að villandi og jafnvel rangar upplýsingar varðandi verkefnið hafi farið til borgarráðs. Auk þess var borgarráð ekki nægilega upplýst um framvindu mála. Óásættanlegt er að upplýsingagjöf til borgarráðs sé þannig háttað því ráðið byggir ákvarðanir sínar á upplýsingum.

•      Upplýsingastreymi vegna verkefnisins var ófullnægjandi á allflestum stigum. Verkefnisstjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar virðist ekki hafa upplýst sinn yfirmann um stöðu mála. Þeim ber þó ekki saman um það atriði og sama máli gegnir um ákvarðanatöku í tengslum við verkefnið. Þá er bent á að fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hafi ekki sinnt stjórnendaábyrgð með því að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn svo og borgarráð. Svo virðist vera sem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og „týnst“ meðal stærri og meira áberandi verkefna.

•      Farið var að reglum varðandi samþykkt kostnaðarreikninga hvað varðar fjölda samþykkjenda svo og fjárhæðarmörk vegna þriðja og fjórða samþykkjanda. Samþykkjendur virðast þó ekki hafa fylgst með því hvort útgjöld væru innan fjárheimilda.

•      Eftirlit með verkefninu var að flestu leyti ófullnægjandi og svo virðist sem verkefnið hafi lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra en þess þrönga hóps sem annaðist það. Þá var skjölun vegna verkefnisins ófullnægjandi, nánast engin skjöl um það fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar.

•      Við framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 var ekki farið eftir reglum og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamnings milli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs þar sem segir að umhverfis- og skipulagssvið skuli annast verklegar framkvæmdir.

•      Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar.

•      Samstarf var haft við Borgarsögusafn og Minjastofnun við framkvæmdirnar en þessar stofnanir gerðu ekki kröfu um að húsin yrðu varðveitt óbreytt, enda eru þau hverfisvernduð í deiliskipulagi en ekki friðuð í skilningi laga. Í uppbyggingunni var haldið fast í eldra útlit að sumu leyti, en að öðru leyti ekki, að því er virðist eftir hugmyndum arkitekta.

•      Á árinu 2015 gerði Innri endurskoðun úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og skilaði skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði.

•      Þá kemur fram að hugmyndin um nýsköpunar- og frumkvöðlasetur að Nauthólsvegi 100 er í samræmi við atvinnustefnu Reykjavíkurborgar sem meðal annars leggur áherslu á uppbyggingu nýsköpunarsetra svo og gildandi deiliskipulag sem gerir ráð fyrir veitingarekstri að Nauthólsvegi 100. Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík hafa undanfarin ár átt samvinnu um uppbyggingu á svæðinu og frumkvöðlasetrið er í samræmi við það.

Hér er hægt er að nálgast skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg

https://reykjavik.is/utgefid-efni-innri-endurskodun

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar