Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að þingmennirnir tveir sem reknir voru úr Flokki fólksins, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, hafi átt frumkvæði að fundinum örlagaríka á barnum Klaustur. Hefur Inga þetta eftir formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem mun hafa greint frá þessu á fundi formanna þingflokkanna sem fram fór í dag.
Á leyniupptökunni komu fram ummæli þingmannanna þar sem þeir efuðust um forystuhæfileika Ingu og Karl Gauti sagði orðrétt: „Hún ræður ekki við þetta.“ Á fundinum reifuðu þingmenn Miðflokksins þær hugmyndir að Ólafur Ísleifsson yrði þingflokksformaður Miðflokksins ef hann gengi í flokkinn. Örfáum dögum eftir að fréttamiðlar greindu frá efni leyniupptökunnar voru þeir Ólafur og Karl reknir úr flokknum. Þeir sitja á Alþingi sem óháðir þingmenn.