Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar fordæmir ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem féllu á veitingastaðnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Í tilkynningu segir að hegðun af því tagi sé engum sæmandi og allra síst kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga.
„Sárt er að verða vitni að samtali sem opinberar slíka mannfyrirlitningu. Vandséð er hvernig hægt sé að ætlast til þess að samstarfsfólk þingmannanna á Alþingi vinni með þeim á ný — ekki síst ef haft er í huga að afsökunarbeiðnir viðkomandi þingmanna hafa að mestu einkennst af undanbrögðum frekar en iðrun. Upptökurnar eru jafnframt, og því miður, til vitnis um bakslag í jafnréttisbaráttu kynjanna, í baráttu kvenna, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Það er grátlegt að jaðarsettir hópar þurfi að sitja undir slíkum árásum enn þann dag, sér í lagi af hálfu þeirra sem setja lög í landinu um réttindi þeirra og kjör.“
Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar telur að vegna framgöngu sinnar og viðbragða séu viðkomandi þingmenn rúnir trausti. Óskandi væri að þeir settu virðingu Alþingis og traust á stjórnmálum í landinu ofar eigin hag og segðu af sér þingmennsku.
„Samfylkingin er flokkur jafnaðarmanna og málsvari mannréttinda, jafnréttis og kvenfrelsis, og lítur á þannig á það sem hlutverk sitt að styðja við og valdefla þá hópa sem jaðarsettir eru í samfélaginu,“
segir í tilkynningu.