Fimm starfsmönnum var sagt upp á Fréttablaðinu í dag. Starfsmenn fengu tölvupóst frá útgefanda blaðsins, Kristínu Þorsteinsdóttur, kl. 18 í dag. Þar kemur fram að fimm hafi verið sagt upp í „hagræðingaskyni“ meðal annars vegna flutninga, einnig hafi verkefnum móðurfélagsins fækkað með sölu eininga til Sýnar.
„Það er leitt að sjá eftir góðu fólki og við óskum þeim velfarnaðar.“
Fréttablaðið flutti fyrir stuttu úr Skaftahlíð í nýtt húsnæði á Hafnartorgi.
Samkvæmt heimildum DV var tveimur blaðamönnum sagt upp, ásamt þremur öðrum starfsmönnum og vinna allir starfsmenn uppsagnarfrestinn. Samkvæmt heimildum Mannlífs var starfsfólki úr minnst þremur deildum blaðsins sagt upp: það er íþrótta-, dægurmála-, og kynningardeild. Hefur vinnuandinn á Fréttablaðinu ekki verið upp á sitt besta síðan blaðið fluttist í nýtt húsnæði. Þá aðallega þar sem nýja húsnæðið er óklárað og ryk og mikill hávaði gerir vinnuaðstæður slæmar.