„Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á Facebook vegna frétta DV sem í kvöld hafa verið birtar upp úr upptökum sex þingmanna sem ræddu saman á Kvosin við hliðina á Alþingishúsinu en hét áður Vínbarinn. Margt sem þar kemur fram er einkamál þingmannanna en annað á erindi við almenning. Viðstaddir voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, sem öll eru í Miðflokknum, og svo Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins. Á upptökunum má heyra þingmenn úr bæði Flokki fólksins og Miðflokknum ræða mjög tæpitungulaust um stjórnmál og stjórnmálamenn. Þar lýsir m.a. Gunnar Bragi með hvaða hætti hann skipaði Geir og Árna árið 2014 þegar hann var utanríkisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Þá var Ólafi Ísleifssyni boðið að verða þingflokksformaður Miðflokksins. Gunnar Bragi hefur sagt við DV að það hafi verið grín.
Sigmundur Davíð telur að sími eins úr hópnum hafi verið hleraður. DV fékk upptökurnar sendar nafnlaust. Þá hefur DV myndskeið undir höndum þar sem heimildarmaðurinn tekur upp á myndskeið þegar þingmennirnir ganga út af staðnum. Sigmundur segir á Facebook:
„Í kvöld birtust ótrúlegar fréttir sem sagðar eru unnar upp úr leynilegri hljóðupptöku af samtölum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Þær ægir öllu saman. Í sumu af því sem hefur birst er viljandi eða óviljandi ranghermt um hvað er verið að ræða og hver segir hvað.“
Þá segir Sigmundur: „Samtöl þingmanna sem sitja saman á góðri stund og grínast hver við annan eru auk þess látin hljóma eins og pólitískt plott. Samtal sem ég var sagður hafa átt við Ólaf Ísleifsson um að hann yrði þingflokksformaður Miðflokksins var unnið upp úr samræðum milli annarra manna um aðra hluti í léttum dúr og fór fram eftir að Ólafur var farinn.“
Þá segir Sigmundur að alvarlegt sé að á Íslandi séu einkasamtöl þingmanna hleruð. Sigmundur segir:
„Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.
Ég man ekki eftir dæmi um slíkt í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks.
Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru Íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“
Í gögnum sem DV hefur undir höndum er það nánast öruggt að ekki hafi neinn sími verið hleraður og bárust blaðinu ekki bara hljóðupptökur af fundinum heldur einnig myndir og myndbönd. Hljóðupptakan er augljóslega tekin upp í fjarlægð frá borði þingmannanna þar sem hún var mjög óskýr þegar DV fékk hana í hendurnar og þurfti tæknimaður DV að leggja umtalsverða vinnu í að laga hljóðið. Einnig skal taka það fram að í nýjustu farsímum sem eru í sölu í dag eru með afar góða hljóðnema sem geta tekið upp hljóð í einhverri fjarlægð, fer það alfarið eftir gerð farsíma.