fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Vandræðaleg augnablik alþingismanna

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 17. nóvember 2018 10:15

Ásmundur Einar Ældi í flugvél.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur áður fjallað um seinheppna, spillta, nú eða heiðarlega þingmenn. Í gegnum árin hefur þónokkur fjöldi fengið nafn sitt skráð í sögubækurnar, og þá fyrir hluti sem þeir vilja án efa ekki láta minnast sín fyrir. Hver man ekki eftir þegar Ásmundur Einar ældi yfir nokkur sæti í flugvél WOW air eða þegar Höskuldur Þórhallsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, stal senunni og greindi fyrir mistök frá ráðherraembættum og hver yrði forsætisráðherra í kjölfar uppþots vegna Panamaskjalanna. DV hefur eins og áður segir fjallað um ýmsar neyðarlegar aðstæður og hér eru rifjaðar upp nokkrar slíkar.

 

Ásmundur Einar ældi yfir nokkur sæti í flugvél WOW air

Í maí 2015 komst Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, í kastljós fjölmiðla eftir að hann varð fyrir því óláni að æla yfir nokkur sæti í flugvél WOW air þegar hann fór til Washington til að funda með bandarískum embættismönnum og fleirum. Tvennum sögum fór af ástæðu uppkastanna en Nútíminn sagði hann hafa verið ölvaðan. Þessu vísaði Ásmundur á bug og sagðist hafa verið veikur í maga. Hann sagði í samtali við DV að hann hefði ælt út um allt á leiðinni út til Washington og á leiðinni heim.

Smári McCarthy
Reikningsdæmið gekk ekki upp.

Lærði Smári McCarthy stærðfræði eða ekki?

Á haustmánuðum 2016 sköpuðust töluverðar umræður um hvort Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, hefði skráð rangar upplýsingar um menntun sína á Linked-in. Þá ályktun mátti draga af ferilskrá hans að hann hefði lokið BS-gráðu í stærðfræði. Hann lauk því námi aldrei. Smári sagðist ekki vita hversu stórum hluta námsins hann hefði lokið en á samfélagsmiðlum sagðist hann eiga lítið eftir. Sigrún Helga Lund, dósent og doktor í tölfræði og frambjóðandi Viðreisnar, furðaði sig á málinu þar sem Smári náði ekki einu sinni að ljúka fyrstu önn námsins að hennar sögn en hafi hins vegar verið iðinn við að bulla um stærðfræði á Wikipedia sem hafi komið inn ranghugmyndum hjá nemendum.

Skór Sigmundar Davíðs stálu senunni á fundi hans með Obama

Síðsumars 2013 fundaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, með Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, ásamt leiðtogum hinna Norðurlandanna. Sigmundur stal eiginlega senunni en ekki vegna umræðna stjórnmálamannanna heldur var það skófatnaður hans sem vakti svo mikla athygli. Á öðrum fæti hans var spariskór en gamall íþróttaskór á hinum. Obama og hinir leiðtogarnir skemmtu sér yfir þessu og ræddu þetta undarlega mál auk heimsmálanna. Ástæðan fyrir þessum undarlega skófatnaði var að Sigmundur fékk sýkingu í annan fótinn og tútnaði hann út. Eftir að læknar höfðu búið um fótinn passaði hann bara í strigaskó svo ekki var um annað að ræða en fara í strigaskó.

Hanna Birna
Sveik tímaritið MAN á útgáfudegi.

Hanna Birna eyðilagði forsíðuviðtal MAN

Í apríl 2015 mætti Hanna Birna Kristjánsdóttir í viðtal í Íslandi í dag. Þennan sama dag átti að prenta tímaritið MAN. Viðtal Hönnu Birnu í Íslandi í dag reyndist örlagaríkt fyrir MAN því þar ræddi hún það sama og hún hafði rætt við MAN. Ritstjóri MAN greip því til þess ráðs að henda viðtalinu og útbúa nýja forsíðu með nýju forsíðuviðtali. Nútíminn sagði að Hanna Birna hefði verið búin að lofa að fara ekki í persónuleg viðtöl hjá öðrum fjölmiðlum en MAN. Björk Eiðsdóttir, ritstjóri MAN, sagðist bara hafa brett upp ermar og komið með ekki síðra forsíðuviðtal. Hanna Birna hafði verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum mánuðina á undan, en í nóvember 2014 sagði hún af sér embætti innanríkisráðherra vegna Lekamálsins svokallaða.

Björt Ólafsdóttir
Eins og hátískufyrirsæta í Mílanó.

Björt með tískusýningu í þingsal Alþingis

Í júlí 2017 baðst Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, afsökunar á að hafa setið fyrir á mynd í þingsal Alþingis. Hún klæddist kjól frá fyrirtæki sem vinkona hennar er listrænn stjórnandi hjá. Myndin var síðan notuð til markaðssetningar á Instagram. Björt sagðist hafa sýnt dómgreindarleysi með því að „flögra um þingsalinn“. Með þessu sagðist hún hafa leyft sér að upphefja kvenleikann inni í þingsalnum. Skoðanir voru skiptar um þetta tiltæki, en eins og með margt annað fennti yfir málið.

Katrín Jakobsdóttir
Pósar með mjólkurfernur.

Mjólkurkonan Kata Jak

Á dögunum afhentu fulltrúar Mjólkursamsölunnar og afmælisnefndar fullveldis Íslands Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, nýjar mjólkurfernur fyrirtækisins. Fernurnar eru skreyttar með texta og myndum sem tengjast atburðum á fullveldisárinu 1918. Í kjölfarið stillti Katrín sér upp við málverk af Jóni Sigurðssyni með fernurnar í hönd og sat fyrir á nokkrum myndum. Sú regla hefur verið viðhöfð að Alþingishúsið sé ekki notað til þess að auglýsa vörur en Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, vildi ekki meina að um kynningu á vörum væri að ræða heldur tengdist viðburðurinn fullveldisafmælinu.

Höskuldur Þórhallsson Stal þrumu Sigurðar Inga.

Höskuldarviðvörun

Í aprílbyrjun 2016 varð allt vitlaust í þjóðfélaginu í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin. Sérstaklega beindust spjótin að forsætisráðherranum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem hafði orðið uppvís að því að eiga aflandsfélagið Wintris ásamt eiginkonu sinni. Mikil spenna var í Alþingishúsinu þann 6. apríl og biðu fjölmiðlamenn eftir fregnum af afdrifum ríkisstjórnarinnar. Þá kom Höskuldur Þórhallsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, röltandi niður stiga og tilkynnti í óspurðum fréttum að Sigurður Ingi Jóhannsson myndi taka við sem forsætisráðherra og að Lilja Alfreðsdóttir yrði utanþingsráðherra. Kom það þingmanninum í opna skjöldu að hann væri að segja blaðamönnum fréttir og að hann hefði stolið senunni með eftirminnilegum hætti.

Dóra Björt
Sýndi mikla leiktilburði í sal borgarstjórnar.

Leikþáttur Dóru

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Pírata, ákvað í haust að flytja leikþátt úr sjónvarpsþáttunum Litla Bretland, Little Britain, á borgarstjórnarfundi. Um var að ræða mínútulangt atriði sem fjallaði um tölvuna sem sagði „nei“. Að margra mati var um að ræða pínlegustu mínútu í sögu íslenskra stjórnmála þar sem forseti borgarstjórar lék hlutverk Helenu Jörgensen, Geirs Jörgensen og Karólínu og notaði Dóra sérstakar raddir á persónurnar. Gerði hún þetta til að sýna fram á hvað kerfi Reykjavíkurborgar getur verið svifaseint en hvernig það verði lagað með innleiðingu nýrrar þjónustustefnu. Dóra sagði síðar í viðtali að hún hefði leikið betur en hún hafði getað ímyndað sér.

Jón Baldvin
Vafasamur díll fyrir afmælisveislu.

Áfengisdíll fjármálaráðherrans

Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi fjármálaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, hélt glæsilega afmælisveislu til heiðurs Ingólfi Margeirssyni, ritstjóra Alþýðublaðsins. Veislan var haldin á veitingastað í bænum og heppnaðist gríðarlega vel að sögn þeirra sem þar voru. Jón Baldvin gerði samning við þennan tiltekna veitingastað um að fá að kaupa þar áfengið sem veitt var í veislunni og kaupa svo áfengi af ÁTVR til að greiða skuld sína. Ráðherrar á þessum tíma gátu keypt áfengi í ÁTVR án tolla og opinberra gjalda. Þegar upp komst um þennan skiptidíl fjármálaráðherrans endurgreiddi hann áfengið. Jón Baldvin viðurkenndi svo síðar að hann hefði gert sig sekan um dómgreindarbrest. Hann sagði þó ekki af sér þingmennsku eða ráðherrasætinu.

Össur
Lét Baugsmenn finna til tevatnsins.

Harðort bréf til Baugsmanna

Össur Skarphéðinsson sendi forsvarsmönnum Baugs tölvupóst snemma árs 2002. Bréfið olli miklum titringi og var Baugsmönnum afar brugðið. Í bréfinu segir Össur að bróðir hans hafi verið rekinn frá fyrirtæki þeirra vegna skoðana Össurar. Hann kallar Baugsfeðga hreinræktaða drullusokka og segist ekki munu gleyma hvernig þeir komi fram við fólk. Þar lætur hann þá eftirminnilegu setningu falla: „You ain’t seen nothing yet“ og vísar í að hann láti þetta ekki þagga niður í sér.

Ingibjörg Pálmadóttir
Féll í yfirlið í beinni.

Yfirlið í beinni

Margir muna eflaust eftir því þegar Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, féll í yfirlið í beinni útsendingu hjá RÚV þar sem hún var í viðtali árið 2001. Ingibjörg féll nánast beint í fangið á Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttakonu þar sem viðtalið fór fram í kringlu Alþingishússins. Nokkrar umræður fóru í gang í kjölfarið um að þetta hefði verið sviðsett. Ingibjörg sagði af sér ráðherraembætti skömmu seinna og var ástæðan sögð veikindi hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorgerður og Jón gera grín að dramanu í Samfylkingunni

Þorgerður og Jón gera grín að dramanu í Samfylkingunni
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“

Hafa litla trú á nýju kosningalíkani – „Hverju erum við bættari með öllum þessum skoðanakönnunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum

Guðlaugur Þór og Bergþór karpa um það hvort Sjálfstæðisflokkur eða Miðflokkur hafi fyrstur komið með herta stefnu í útlendingamálum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?