Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, líkir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, við Georg Bjarnfreðarson, vinstri sinnaða kverúlantinn með fimm háskólagráðurnar, sem Jón Gnarr lék svo eftirminnilega í Næturvaktinni, Dagvaktinni og Fangavaktinni.
Ástæðan er útskýring Bjarna á hvernig standi á því að framlög til öryrkja lækki samkvæmt tillögum fjárlaganefndar, þrátt fyrir áður boðaðar hækkanir:
„Þetta er bara mis… misskilningur“ sagði Georg Bjarnfreðarson. Ef ég hef talið rétt hefur fjárlaga- og efnahagsráðherra sagt ,,þetta er misskilningur“ í óundirbúnum fyrirspurnum átta sinnum þegar að hann hefur ítrekað verið spurður um lægri tölu til öryrkja á árinu 2019. Misskilningurinn felst í því að þingmenn vita ekki að hækkunin hefur verið 75% síðustu ár og kaupmáttur öryrkja aukist mikið að sögn ráðherrans. En það er bara eitt sem ég skil ekki: Hvers vegna fá öryrkjar þá bara 205 þúsund útborgað? Og hvers vegna mega kjarabætur ekki gilda frá 1. janúar 2019 þó að kerfisbreytingin sem von er á taki ekki gildi fyrr en síðar á árinu?“
spyr Oddný.
Fyrr í dag sagði Bjarni að um misskilning væri að ræða, því í raun væri það töf á kerfisbreytingum sem orsakaði þennan misskilning að um lækkun væri að ræða. Í raun væri verið að auka framlögin, ekki skera þau niður:
„Það er mikill munur á því að fara í niðurskurð á almannatryggingum sem standa undir greiðslum til öryrkja, eða því sem við erum að gera sem er að bæta í. Við erum með fjóra milljarða sem við höfum tekið frá á ári til þess að ráðast í breytingar til hagsbóta fyrir öryrkja. Það er vinna sem hefur staðið yfir í nokkur ár og stendur enn yfir. Vegna þess hve langt er liðið á árið erum við ekki að gera ráð fyrir því að breytingarnar geti tekið gildi frá og með áramótum og það hefur þá þær afleiðingar að sú fjármögnun sem fylgir kemst ekki út til öryrkja frá og með áramótum en við erum að gera ráð fyrir að það geti orðið, samkvæmt þessum tillögum, á fyrsta ársfjórðungi. Í heildina þýðir þetta það að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að við myndum bæta til öryrkja á næsta ári sex milljörðum en vegna þeirra tafa sem eru að verða á kerfisbreytingum þá eru það 5 milljarðar sem bætast við. Þannig að allt tal um niðurskurð er á algjörum misskilningi byggt.“