Jónas Garðarsson er fæddur í Reykjavík þann 8. október árið 1955 og ólst upp á höfuðborgarsvæðinu. Eftir gagnfræðapróf fór hann á sjóinn og var í siglingum á skipum Eimskipafélagsins í tíu ár. Um tíma var hann einnig á íslenskum varðskipum.
Árið 1982 hóf Jónas störf hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem síðar varð að Sjómannafélagi Íslands. Árið 1991 var Jónas orðinn framkvæmdastjóri Sjómannafélagsins og árið 1994 formaður. Einnig hefur hann setið í stjórnum Sjómannasambands Íslands, Lífeyrissjóðs sjómanna, sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands og í sjómannadagsráði.
Haustið 1998 vakti Jónas nokkra athygli fyrir beinar aðgerðir varðandi hentifánaskipið Hanseduo, eitt af níu skipum sem Eimskip höfðu á leigu. Var Hanseduo að flytja aðföng fyrir álverið í Straumsvík og lesta ál til útflutnings. Jónas hafði áður lýst því yfir í viðtali á Bylgjunni að ef hugmyndir um skráningu hentifánaskipa hér á landi yrðu að veruleika yrði það dauðadómur yfir íslenskri farmannastétt.
Jónas og þrjátíu félagar hans í Sjómannafélaginu sáust á lóð álversins með lambhúshettur og kunni Rannveig Rist forstjóri því illa. Klæðnaðurinn var þó ekki til að vekja skelfingu heldur til að verjast kuldanum. Stóðu þeir alla nóttina og kröfðust þess að fulltrúar Eimskipa settust við samningaborð til að ræða kjör áhafnarinnar sem var að mestu leyti frá Filippseyjum. Sögðu félagsmenn þessa sjómenn aðeins fá um 30 þúsund krónur í mánaðarlaun. Forsvarsmenn Eimskipa töldu aðgerðir félagsmanna hins vegar algjörlega ólöglegar og að kjarasamningar áhafnarinnar uppfylltu öll alþjóðleg ákvæði.
Nokkrum dögum seinna fóru Jónas og félagar hans um borð í hentifánaskip að nafni Hansewall. Lá það við bryggju í Sundahöfn og var einnig á leigu hjá Eimskipum. Var Jónasi og félögum meinaður aðgangur að svæði Eimskipa þegar þeir vildu kanna pappíra áhafnarinnar. Fóru þeir þá yfir hliðið og komust um borð. Slíkar aðgerðir héldu áfram, til dæmis þegar skipið Nordheim var stöðvað við affermingu árið 1999. Setti sýslumaðurinn í Reykjavík að lokum lögbann á aðgerðirnar en Sjómannafélagið var sýknað í héraðsdómi.
Í maí mánuði árið 2000 var greint frá því að lögreglan í Reykjavík hefði til meðferðar mál sem tengdist ólöglegri meðferð á áfengi, sem talin var tengjast smygli. Alls var lagt hald á um 200 lítra af áfengi. Voru tveir menn teknir til yfirheyrslu vegna málsins og annar af þeim var Jónas Garðarsson. Í viðtali við Vísi sagðist hann ekki hafa verið uppvís að smygli. Þegar fréttamaður RÚV spurði Jónas hvort stjórn Sjómannafélagsins hefði skoðun á áfengissmygli „hló hann við spurningunni og sagði félagið ekki hafa neina skoðun á þess háttar smygli sem viðgengist hefði frá örófi alda“ eins og stóð í DV 24. október þetta ár. Jónas var ákærður fyrir smygl en sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2002.
Mikill æsingur varð í kringum komu skemmtiferðaskipsins Clipper Adventurer frá Panama í ágúst árið 2001. Benti Sjómannafélagið á að áhöfn skipsins væri ekki með kjarasamninga sem uppfylltu skilyrði Alþjóða flutningaverkamannasambandsins og vildu Jónas og félagar hans mótmæla við skipshlið. Lögbann var sett á aðgerðirnar en engu að síður mættu þeir ásamt fólki úr öðrum verkalýðsfélögum.
Ferðaskrifstofan Samvinnuferðir Landsýn sá hins vegar við mótmælendum og var skipinu ekki lagt að bryggju. Þess í stað voru ferðamennirnir ferjaðir með gúmmíbát í land. Lögreglan var á svæðinu til að sjá til þess að allt gengi friðsamlega fyrir sig en þegar pústrar komu upp voru Jónas og tveir aðrir mótmælendur handteknir. Eftir þetta sagðist Jónas íhuga að kæra lögregluna fyrir ofbeldi. Einn þeirra sem handteknir voru, Árni Konráðsson, var tæplega áttræður og þurfti að leita á slysadeild eftir fangbrögð lögreglunnar.
Jónas Garðarsson festi kaup á skemmtibát í Englandi og sigldi honum til landsins þann 20. ágúst árið 2005. Fékk báturinn heitið Harpa eftir eiginkonu hans, Guðjónu Hörpu Helgadóttur.
Föstudagskvöldið 9. september þetta sama ár sigldi Jónas ásamt, eiginkonu sinni, ellefu ára syni og vinafólki sínu út á Kollafjörð. Þetta voru sambýlisfólkið Friðrik Ásgeir Hermannsson, 34 ára, og Matthildur Victoría Harðardóttir, 51 árs. Voru þau í skemmtiferð til að fagna því að Friðrik, sem var lögfræðingur, hefði flutt sitt fyrsta prófmál fyrir Hæstarétti.
Ljósbaujur voru í sjónum til að leiðbeina skipum og bátum inn í Sundahöfn en bátnum hafði verið siglt röngu megin við þær. Algengt var að þeir sem þekktu vel til á svæðinu gerðu þetta viljandi til að stytta sér leið. Þegar liðið var á nóttina, rétt fyrir klukkan tvö, sigldi báturinn á Skarfasker við Viðey á miklum hraða. Sonurinn var þá sofandi í gistirými bátsins en aðrir í stýrishúsinu.
Harpa var föst á skerinu í um það bil tuttugu mínútur. Þá var bátnum bakkað í tilraun til að sigla honum skemmdum í höfn. Þegar leit út fyrir að báturinn væri að sökkva hringdi Jónas í Neyðarlínuna. Eftir að hafa siglt í um fjórar mínútur hvolfdi bátnum og ætla má að Matthildur, sem var í káetunni, hafi drukknað þá.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst út ásamt lögreglunni. Þegar lögreglumenn á gúmmíbát fundu Hörpu meira en klukkutíma eftir útkallið sáu þeir Jónas hangandi utan á bátnum. Guðjóna sat þá á kili bátsins ásamt syni þeirra. Eftir að Jónasi og fjölskyldu hans var bjargað um borð í gúmmíbátinn voru þau flutt upp á gjörgæsludeild. Höfðu þau fengið mikla áverka við höggið. Jónas var tvílærbrotinn og Guðjóna með brotin rifbein.
Strax eftir að þeim hafði verið bjargað hófst leitin að Friðriki og Matthildi. Kafarar stukku í sjóinn og fljótlega fannst lík Matthildar. Talið var að Friðrik hefði kafað undir bátinn til að leita að henni en hann fannst ekki strax.
Lögregla, björgunarsveitir, kafarar frá Landhelgisgæslunni og vinir og ættingjar Friðriks leituðu að honum dagana á eftir. Um tíma var veður mjög vont og aðstæður allar erfiðar. Fljótlega hóf rannsóknarnefnd sjóslysa störf og var Harpa rannsökuð í lokuðu húsnæði. Á meðan dvöldu Jónas og Guðjóna þungt haldin á Landspítalanum. Laugardaginn 17. september, viku eftir áreksturinn, fannst lík Friðriks neðansjávar vestan við Viðey.
Fljótlega fór rannsókn lögreglu að beinast að Jónasi og Guðjónu. Viku eftir áreksturinn voru þau yfirheyrð og höfðu þá réttarstöðu sakborninga. Talið var að þau hefðu neytt áfengis þetta kvöld en rannsóknin beindist að því að komast að því hver hefði verið við stýrið þegar báturinn steytti á skerinu. Sagði Hörður Jóhannesson aðstoðaryfirlögregluþjónn langlíklegast að það hafi verið Jónas. Jónas sagðist aftur á móti ekki muna mikið eftir atburðarásinni vegna höfuðhöggs sem hann hlaut við höggið. Út frá rannsókninni var Jónas kærður fyrir manndráp af gáleysi. Sagði hann sig frá trúnaðarstörfum fyrir Sjómannafélagið vegna þess.
Aðalmeðferð málsins hófst föstudaginn 5. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur. Viðurkenndi Jónas þar að hafa drukkið áfengi þetta umrædda kvöld. Tvö glös af gini og rauðvín með kvöldmatnum. Klukkan 4.09 um nóttina mældust 1,07 prómill í blóði hans sem er langt yfir leyfilegum mörkum. Hann sagðist þó ekki hafa fundið fyrir ölvun og gæti sjálfur metið það hvort hann gæti stjórnað báti verandi búinn að drekka.
Jónas hafnaði því hins vegar að hafa verið við stýrið og sagðist muna atburði kvöldsins þangað til hann lét Matthildi um stjórn bátsins. Hafi það verið fyrir áeggjan Friðriks en Jónas sagðist ekki hafa vitað hvort hún hefði tiltekin réttindi til að stýra bát. Sagðist Jónas hafa leiðbeint Matthildi út fyrir Skarfasker en síðan væri minnið þrotið þar til hann var sjálfur á sundi og báturinn á hvolfi. Var Jónas sá eini um borð sem hafði aflað sér siglingarmenntunar og því skipstjóri allan tímann samkvæmt lögum.
Rannsókn á áverkum þeirra sem um borð voru leiddi hins vegar í ljós að Matthildur hefði verið í setustofu bátsins. Lík hennar var með áverka á sköflungum en Jónas hafði brotnað á læri og úlnlið. Þar að auki fannst kertavax bæði á setubekk og annarri ermi Matthildar. Auk þess höfðu bæði Guðjóna og sonur þeirra sagt að Matthildur hefði verið í sófa á bak við stýrisbekkinn. Töldu dómarar að Jónas sjálfur hefði staðið við stýrið.
Í réttarhöldunum var gáleysi Jónasar einnig rætt út frá vöntun á sjókorti. Samkvæmt siglingafróðum meðdómsmanni var það frumforsenda þess að hægt væri að sigla um svæðið með gát eins og aðstæður voru. Jónas sjálfur sagðist hins vegar aldrei hafa notað sjókort eða staðsetningartæki á ferðum sínum um Sundin.
Eftir að báturinn steytti á skerinu bar Jónasi sem skipstjóra að grípa til allra tiltækra ráðstafana til að bjarga farþegunum. Björgunarbátur var geymdur í tösku í vélarrýminu og virtist sem engar tilraunir hafi verið gerðar til að opna hann. Einnig voru hvorki neyðarblys né talstöð bátsins notuð. Í upptökum af samtölum við Neyðarlínuna heyrðist að Jónas hafi vikið sér undan því að tala í farsíma við neyðarlínuna.
Hélt lögmaður Jónasar því fram að áhrif höfuðhöggs hefðu valdið þessari hegðun Jónasar. Ekkert kom hins vegar fram sem benti til þess að höggið hefði verið verulegt eða haft áhrif á minnið.
Þann 6. júní árið 2006 var Jónas fundinn sekur fyrir manndráp af gáleysi og stórfelld brot á skipstjórnarskyldum sínum. Einnig að hafa valdið konu sinni stórfelldu líkamstjóni. Hlaut hann þriggja ára fangelsisdóm og var dæmd skaðabótaskylda gagnvart ættingjum Friðriks og Matthildar. Var þessi dómur staðfestur þann 10. maí árið 2007. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt sakavottorði Jónasar hafði hann í þrígang verið sakfelldur fyrir brot á tollalögum.
Auk fangelsisdómsins var Jónasi gert að greiða aðstandendum fórnarlambanna 10 milljónir í bætur. Sagðist hann þó ekki ætla að greiða skaðabæturnar fyrr en afplánun væri lokið. Væri það vegna þess að hann vildi tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldu sinnar. Bjuggu þau þá í einbýlishúsi sem skráð var á eiginkonu Jónasar.
Langt er nú um liðið síðan Jónas lauk afplánun en enn hafa aðstandendurnir ekki fengið bætur frá honum heldur aðeins 600 þúsund krónur úr bótasjóði ríkisins. Það staðfesti systir Matthildar í samtali við Stundina. Var bent á það að Jónas hefði 1,9 milljónir króna í tekjur á mánuði árið 2016.
Þegar reynt var að innheimta árið 2015 fundust engar eignir í búi Jónasar. Skaðabótakröfurnar eru nú fyrndar, tólf árum eftir uppkvaðningu dóms.
Í september árið 2007 fékk Jónas boðun um að hefja afplánun. DV greindi frá því viku fyrr að Jónas hefði sótt um að fá náðun frá afplánuninni. Samkvæmt heimildum DV á þeim tíma stóð í umsókninni að ástæðurnar væru bág fjárhagsstaða og erfiðar fjölskylduaðstæður.
Á sama tíma greindi DV frá því að báturinn Harpa hefði horfið úr löggæslu. Samkvæmt dómi átti að selja Hörpu á uppboði og átti ágóðinn að renna til aðstandenda Friðriks og Matthildar. Kom þá á daginn að Jónas hafði selt bátinn í byrjun árs 2006 og sagði hann að sýslumaðurinn í Reykjavík hefði ekkert að gera með að kyrrsetja hann. Neitaði hann að segja hver hefði keypt bátinn eða hvar hann væri.
Aðstandendur Matthildar og Friðriks voru hins vegar ekki sannfærð um að báturinn væri seldur enda var hann skráður í eigu Jónasar þegar gerðin um löggeymslu var gerð. Meðan á réttarhöldunum stóð var báturinn í geymslu í bílskúr í Garðabænum. Í október árið 2006 þegar löggeymslan var gerð var báturinn í kerru við bílskúrinn.
Í nóvember árið 2007 greindi DV frá því að Harpa væri í viðgerð í Noregi og væri það að beiðni Jónasar sjálfs. Hefði hann komið bátnum úr landi 17. nóvember árið 2006 með flutningaskipinu Kársnesi. Í janúar árið 2008 vissi norska lögreglan hins vegar ekki hvar báturinn var niður kominn.
Í ágúst árið 2010 greindi DV frá því að Jónas hefði snúið aftur til trúnaðarstarfa fyrir Sjómannafélag Íslands. Til að byrja með var hann settur í nefnd til að semja um kjör fyrir sjómenn um borð í skipum Hafrannsóknarstofnunar og Landhelgisgæslunnar. Birgir Hólm Björgvinsson framkvæmdastjóri sagði þá:
„Ég þekki hann vel og hann er mjög góður starfskraftur sem hefur unnið vel fyrir sjómenn. Þó hann hafi lent í þessu hörmulega slysi þá getur hann ekki verið með yfir sér ævilangan dóm. Málið er búið og maðurinn aldeilis búinn að taka út sinn dóm. Ég get ekki séð annað en að gefa verði mönnum annan sjéns. Það kom skýrt fram á síðasta aðalfundi félagsins að bæði stjórnarmenn og félagsmenn vildu að hann kæmi aftur til starfa. Þar voru allir sammála og enginn mótfallinn.“
Ekki leið á löngu þar til hann var orðinn formaður félagsins aftur. Einnig var hann tekinn inn í stjórn Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðra, sem þykir virðingarstaða og aðeins veitt þeim sem eru mikils metnir af sjómönnum.