fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þór mokgræðir á mathöllum Reykvíkinga

Björn Þorfinnsson, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Laugardaginn 3. nóvember 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö fyrirtæki í eigu Þór Sigfússonar fjárfestis leigja Mathallirnar tvær, Granda og Hlemm, af Reykjavíkurborg á kostakjörum. Húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi er í beinni eigu Reykjavíkurborgar en húsnæðið úti á Granda er í eigu Faxaflóahafna sf., sem er í meirahlutaeigu borgarinnar. Fyrirtæki Þórs hafa heimildir til að endurleigja rýmin út til hinna ýmsu fyrirtækja. Samkvæmt ársreikningi félaganna skilar starfsemi félaga Þórs myljandi hagnaði. Skattgreiðendur í Reykjavík sátu uppi með kostnaðinn við endurbætur á fasteignunum. Sá kostnaður fór gjörsamlega úr böndunum varðandi Mathöllina á Hlemmi en DV hefur ekki upplýsingar um hvað framkvæmdirnar úti á Granda kostuðu skattborgara.

Þór Sigfússon hagnast vel á að endurleigja húsnæði sem skattborgarar í Reykjavík borguðu háar fjárhæðir fyrir að endurnýja.

Kostnaðaráætlunin þrefaldaðist

Fyrirtækið Hlemmur Mathöll ehf. leigir gömlu strætómiðstöðina við Laugaveg 107 af Reykjavíkurborg. Félagið er í 100% eigu Ocean Innovation ehf. en það félag er síðan í 100% eigu Íslenska sjávarklasans ehf. 100% eigandi þess félags er Þór Sigfússon. Mikill metnaður var lagður í uppbyggingu matarmarkaðarins en verkefnið hófst í byrjun árs 2016. Alls var gert ráð fyrir að breytingarnar á húsnæðinu myndu kosta 107 milljónir króna. Þær áætlanir stóðust engan veginn. Í desember 2016 samþykkti borgarráð uppfærða kostnaðaráætlun upp á 152 milljónir. Það dugði ekki og endanlegur kostnaður við Mathöllina á Hlemmi varð 308 milljónir króna.

Fyrirtæki Þórs skrifaði undir leigusamning við Reykjavíkurborg snemma í ferlinu eða í febrúar 2016. Leiguverðið er afar hagstætt eða 1.012.000 krónur á mánuði fyrir húsnæði sem er 529 fermetrar að stærð, eins og kom fram í Fréttablaðinu fyrir tæpu ári. Margvíslegar breytingar voru gerðar á húsnæðinu í ferlinu og tók Reykjavíkurborg þann kostnað á sig án þess að það hefði áhrif á leiguverðið.

Veitingarými leigð út á margföldu verði

Samkvæmt ársreikningi Hlemmur Mathöll ehf. námu leigutekjur félagsins 25,5 milljónum króna fyrir árið 2017. Mathöllin var opnuð um miðjan ágúst 2017 og því eru leigutekjurnar aðeins fyrir fyrstu fimm mánuði ársins. Miðað við fjölda veitingabása á Hlemmi þá er leiguverðið um 500 þúsund krónur á hvern. Að því gefnu þá eru árstekjur fyrirtækisins af útleigu húsnæðisins rúmlega 61 milljón króna á hverju ári en á móti greiðir félag Þórs rúmlega 12 milljónir króna í leigu til Reykjavíkurborgar.

Þá má geta þess að Reykjavíkurborg gerði einnig einkar vel við Hlemm mathöll ehf. varðandi viðbótarlagerhúsnæði sem fyrirtækið vantaði sárlega. Það rými fékkst leigt á Hverfisgötu 115, fallegu íbúðarhúsnæði milli Hlemms og lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Þar fékk fyrirtækið 20 fermetra geymslu, í hjarta borgarinnar, til leigu á 25 þúsund krónur á mánuði.

Til samanburðar leigir Reykjavíkurborg 75 fermetra skrifstofuhúsnæði að Hverfisgötu 76. Leiguverðið fyrir rýmið er rúmlega 205.000 krónur á mánuði eða um 2.700 krónur fyrir hvern fermetra. Borgin leigir því dýrt en leigir út ódýrt.

Myljandi hagnaður af endurleigu úti á Granda

Grandi Mathöll var opnuð með pomp og prakt þann 1. júní síðastliðinn í húsnæði að Grandagarði 16. Eins og áður segir er húsnæðið í 100% eigu Faxaflóahafna, þar sem Reykjavíkurborg er meirihlutaeigandi með um 75% hlut. Húsnæðið er rúmlega 5.258 fermetrar að stærð en rúma 1.800 fermetra af því leigir fyrirtækið Hús sjávarklasans auk afnota af tæplega 200 fermetra kaffistofu. Það fyrirtæki er í 100% eigu Íslenska sjávarklasans sem Þór á að fullu.

Grandi Mathöll

Leigusamningurinn var undirritaður í janúar 2014 og er uppreiknað leiguverð um 1.590 krónur á fermetra. Það þýðir að heildarleigan á mánuði fyrir allt húsnæðið er um 2,8 milljónir króna og á ársgrundvelli 34,5 milljónir króna. Faxaflóahafnir greiddu fyrir breytingarnar á rýminu sem hýsir mathöllina en ekki liggur fyrir hversu mikill sá kostnaður var og hvort áætlanir stóðust.

Alls eru níu fyrirtæki með veitingabása í Mathöllinni úti á Granda. DV hefur ekki upplýsingar um leiguverð sem hver og einn veitingastaður greiðir. Að því gefnu að það sé sambærilegt því sem veitingastaðirnir greiða á Hlemmi þá eru leigutekjur Þórs um 4,5 milljónir á mánuði fyrir veitingarýmið. Á ársgrundvelli eru það 54 milljónir króna. Þá á fyrirtækið eftir að fá leigutekjur af rúmgóðu skrifstofurými á tveimur hæðum á eftirsóttum stað.

„Búin að vera ofboðsleg vinna“

„Ég hef alveg heyrt þá umræðu að samningarnir séu hagstæðir. Þetta er búin að vera ofboðslega vinna að koma þessu verkefni af stað og margir ófyrirséðir kostnaðarliðir sem hafa lent á okkur sem leigutökum. Til dæmis hefur kostnaðurinn við öryggisgæsluna á Hlemmi verið mun meiri en við gerðum ráð fyrir. Það helgast af fyrri starfsemi sem þarna var sem og nálægðinni við lögreglustöðina,“ segir Þór. Þá segir hann að ýmsar kostnaðarsamar breytingar hafi fallið á leigutaka, til dæmis við innri innréttingar sem og kæligeymslu. Þá segir hann að loftræstikerfið á Hlemmi hafi verið afar kostnaðarsamt og ráðast þurfi í frekari breytingar. „Loftræstingin hefur verið vandamál í þessu rými og við þurfum að ráðast í frekari framkvæmdir til að laga það,“ segir Þór.

Þór segist ekki hafa upplýsingar um hvort breytingar við húsnæði Granda Mathallar hafi staðist áætlanir. „Það var mun einfaldara að breyta því húsnæði. Faxaflóahafnir sáu um að gera rýmið klárt, til dæmis með loftræstingu, hita, milliveggjum og salernum auk þess sem þeir skiptu um gler. Við sáum um sameiginlegu rýmin, starfsmannaaðstöðu og þurr- og kæligeymslur,“ segir Þór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“