Íslendingar eru ekki nefndir í þessu samhengi – í Bretlandi er alltaf talað um EES samninginn sem Noreg og ekkert annað. En Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur setið Norðurlandaráðsþing í Osló (þar sem Íslendingar sanka að sér verðlaunum).
May fór til að leita að stuðningi og samkennd vegna Brexit en samkvæmt því sem lesa má í fréttum var hann ekki að finna. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, gerði May ljóst, segir í The Daily Telegraph, að Bretar væru ekki sérlega velkomnir í EES.
Hugmyndin gengur undir heitinu „Norway For Now“. Hún felur í sér að Bretar gangi inn í EES samninginn tímabundið en á meðan verði tíminn notaður til að finna lausn á framtíðarsambandi Bretlands og Evrópusambandsins.
En eins og segir í The Daily Telegraph hellti Solberg köldu vatni á þessar vangaveltur. Sagði að það væri ekki góð hugmynd að fá inn í alþjóðleg samtök (Efta/EES) ríki sem á sama tíma er að áforma að yfirgefa þau.