Konur ætla að leggja niður vinnu í dag klukkan 14.55 til að mótmæla launamun kynjana. Það er 24. október, 43 ár frá kvennafrídeginum mikla 1975.
Reyndar voru deilur dagana áður um hvort þetta væri kvennafrí eða kvennaverkfall. En það einhvern veginn skipti ekki máli þegar á hólminn var komið, samstaðan og einurðin sem birtist á útifundinum þann dag var einstök. Það þurfti þetta til að ná saman konum sem voru róttækar og þeim sem voru meira hægfara, en milli þeirra var talsverð gjá á þessum árum.
Þegar maður hugsar aftur er þetta einn af stórum sögulegum atburðum á Íslandi á 20. öld. Dagur af því tagi að það muna hérumbil allir hvar þeir voru.
Sjálfur var ég piltur í 3. bekk í MR. Maður fagnaði því náttúrlega að kennsla félli niður, mig minnir að það hafi verið danska hjá Ólöfu Ben. Ég fór út á skólalóðina, þar sem er útsýni yfir bæinn, og sá að fólk var farið að safnast saman á Lækjartorgi. Auðvitað mestanpart konur, en það voru líka karlar innanum. Þá skynjaði ég að eitthvað stórt var að gerast. Svo óx fjöldinn og þetta varð mannhaf. Annar eins fundur hefur ekki verið haldinn á Íslandi. Stemmingin var einstök.
Ég var þarna einhvers staðar í mannfjöldanum og heyrði flest sem fór fram á fundinum. Ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur er ógleymanleg, hún talaði með sinni rámu og lífsreyndu rödd beint inn í hjarta þeirra sem hlýddu. Þessi baráttukona varð þjóðhetja á samri stund.
En þetta hafði líka sínar óvæntu hliðar. Ég fór í Vesturbæjarlaugina síðdegis. Þar voru þá engar konur, enda búnings- og sturtuklefar kvenna lokaðir. Karlar í hópi fastagesta völsuðu um naktir og fundu frekar til sín. Var reyndar hálf fáránlegt.
Okkur hefur miðað áfram síðan þá varðandi jafnrétti kynjanna. En það er ennþá talsvert í land og þar speglast öfugsnúið gildismat í samfélaginu. Það er alltaf jafn óþolandi að „kvennastörf“ skuli vera svo hraksmánarlega illa launuð – meðan „karlastörf“ sem eru síst merkilegri gefa vel í aðra hönd.