fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Segir braggamálið skólabókardæmi um fúsk í rekstri borgarinnar – Efast um svör borgarstjóra í málinu

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 11. október 2018 08:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Braggamálið svokallaða er langt frá því að vera úr sögunni og sífellt koma nýjar upplýsingar fram um þetta mál. Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefði átt að taka eftir að viðvörunarbjöllur hafi verið farnar að glymja vegna málsins og það strax á síðasta ári.

Þetta kemur fram í grein eftir Örn í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að komið hafi verið inn á málið í fundargerðum innkauparáðs, fyrirspurnir hafi verið sendar til borgarlögmanns, ráðsmenn hafi gert athugasemdir og ábendingar hafi borist um framúrkeyrslu við braggann. Hann segist sjálfur hafa spurst fyrir um málið í desember á síðasta ári og að borgarlögmaður hafi fengið tvær athugasemdir á síðasta ári.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, vildi ekki tjá sig um grein Arnar þegar Fréttablaðið leitaði svara hjá henni. Hún sagðist vilja bíða þar til rannsókn málsins er lokið.

„En það er alveg ljóst í mínum huga að þetta ferli hefur verið meingallað frá upphafi. Þarna er illa farið með almannafé og mér finnst þetta mjög alvarlegt. Nú síðast með þessi strá. Ég ætla ekki að setja mig í neinn rannsóknarstól, en það er algjörlega ljóst að þarna er illa farið með fé“

Sagði hún í samtali við Fréttablaðið. Blaðið hefur eftir Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, að málið sé skólabókardæmi um fúsk í rekstri borgarinnar.

„Auðvitað koma meirihlutar og fara. Málið er búið að vera í gangi núna í um tvö ár. En sá sem er búinn að vera við stýrið er framkvæmdastjórinn, Dagur B. Eggertsson.“

Sagði Eyþór og benti á að borgarstjóri hafi séð athugasemdir Arnar og ákall innkauparáðs til borgarlögmanns.

„Það má segja að viðvörunarbjöllur hafi hringt og rauð ljós hafi blikkað. Framkvæmdastjórinn hafi ekki sinnt sínu starfi. Hann hefur kannski verið upptekinn í kosningabaráttu eða einhverju öðru. En hann getur ekki bent á aðra starfsmenn því hann fær þessar fundargerðir.“

Sagði Eyþór.

Efast um svör borgarstjóra

Ekki var efnt til útboðs á neinum þætti verksins við braggann og virðist sem greitt hafi verið eftir reikningum án þess að athugasemdir hafi verið gerðar við þá. Morgunblaðið hefur eftir Halli Símonarsyni, innri endurskoðanda borgarinnar, að augljóst sé að skoða þurfi innkaupaþáttinn sérstaklega í tengslum við þetta mál.

Morgunblaðið hefur eftir Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, að hún efist um að svar Dags B. Eggertssonar um að verðfyrirspurnir hafi verið viðhafðar vegna verksins sé rétt.

„Verðfyrirspurnir eru innan ramma laganna en ég er ekki viss um að þessar verðfyrirspurnir hafi farið fram.“

Hefur Morgunblaðið eftir Vigdísi sem bætti við:

„Það eigum við eftir að fá að sjá vegna þess að þegar við fáum svar um hverjir unnu verkin, með kennitölum og dagsetningum, þá gefur borgin rangar upplýsingar upp og sundurliðar ekki efniskaup og vinnu hjá þeim aðila sem er með hæsta reikninginn.“

Hæsti reikningurinn vegna framkvæmdanna við braggann var upp á 105,5 milljónir króna. Að sögn Vigdísar keypti smiðurinn efni eftir hendinni með heimild frá fyrrum borgarstarfsmanni. Síðan hafi reikningurinn bara verið sendur niður í ráðhús og hann samþykktur og greiddur. Allar reglur hafi verið þverbrotnar í þessu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK