Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var aðaleigandi Landsbankans þegar efnahagshrunið skall á fyrir áratug og einn hinna alræmdu útrásarvíkinga, tekur undir orð Geirs H. Haarde sem féllu í Kastljósinu í vikunni, um að Kaupþing hefði blekkt ríkisstjórnina til að veita sér lán. Hann segir að með því hafi stjórnendum Kaupþings tekist að skera sig og bestu vini sína úr snörunni:
„Staðan var sú, að ríkið hafði ákveðið að leggja Glitni til 700 milljónir evra í vonlausri yfirtöku á bankanum. Kaupþing fékk svo síðasta erlenda gjaldeyri seðlabankans, 500 milljónir evra, sem skáru stjórnendur bankans og bestu vini þeirra úr snörunni. Landsbankinn fékk ekkert.“
Hann rekur málið á heimasíðu sinni í dag og segir að Landsbankinn hafi þurft 200 milljónir punda til þess að að bjarga sér, það hafi stjórnvöld vitað, en samt kosið að veita Kaupþingi miklu hærra lán, vegna blekkinga stjórnenda bankans:
„Ríkisstjórn Íslands átti möguleika á að bjarga einum bankanna haustið 2008, með því að fara að hugmyndum breska fjármálaeftirlitsins um að koma Icesave innlánsreikningum Landsbankans hið snarasta undir breska lögsögu. Til þess að svo yrði þurfti Landsbankinn 200 milljón punda fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. En forsætisráðherra var blekktur til að samþykkja miklu hærra lán til Kaupþings. Allur gjaldeyrisforðinn rann þar á einu bretti í vafasamar björgunaraðgerðir Kaupþingsmanna, þar sem helsta markmiðið var að tryggja stjórnendum bankans, mönnum sem höfðu stýrt skráðu félagi í örfá ár, milljarða í eigin vasa. Fyrir tíu árum, 5. október 2008, vissu stjórnvöld af kröfum breska fjármálaeftirlitsins um 200 milljón punda greiðslu frá Landsbankanum. Stjórnvöld áttu að vita, að þar með var Landsbankinn kominn fyrir vind. Stjórnvöld gátu reiknað með fagmennsku og réttri upplýsingagjöf frá breska fjármálaeftirlitinu. Í fyrsta sinn frá því að ég var kallaður til Íslands vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar sýndist mér sem lausn væri í sjónmáli. Ég gerði mér ekki grein fyrir að Kaupþingsmenn næðu að blekkja ríkisstjórnina til að kasta fé í þeirra botnlausu hít. En það er einmitt það sem gerðist. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, segist hafa verið blekktur.“
Björgólfur vísar í viðtal Geirs í Kastljósinu þann 3. október sl. hvar hann viðurkenndi að ríkisstjórnin hafði verið blekkt til að veita Kaupþingslánið:
„Já, ég tel það. Þegar bankinn veitir þetta lán er það borið undir mig. Ég var því samþykkur. Það liggur allt fyrir um það. Bankinn veitir lánið, tekur fyrir því það sem talið er vera mjög traust veð sem á að duga, ekki bara fyrir þessu láni heldur öðrum skuldum bankans við Seðlabankann, sem var náttúrlega meiriháttar trygging. Þetta var allsherjar veð. Síðan reynist það öðruvísi þegar á reynir nokkrum árum seinna, ég þekki ekki þá sögu nægilega vel. En það var alla vega minn skilningur að þetta fjármagn, sem fór til Kaupþings, ætti að fara til þess að greiða úr erfiðleikunum sem bankinn átti við að stríða gagnvart breska fjármálaeftirlitinu. Og hugmyndin var auðvitað sú, með þessu láni, að þá tækist að bjarga einum bankanum. Og þú getur gert þér í hugarlund hvað staðan hefði verið allt, allt öðruvísi ef einn banki, af þessum þremur stóru, hefði lifað þetta af. Það hefði gjörbreytt stöðunni, gert allt saman miklu einfaldara fyrir okkur. Þannig að þess vegna var þetta nú gert. En því miður fór þetta bara á annan veg og þessir peningar fóru, eftir því ég best veit, eitthvað annað heldur en til stóð.“
Icesave stærsta smjörklípan
Þá segir Björgólfur að Icesavereikningar Landsbankans hafi verið notaðir sem smjörklípa og hafi verið „heilmikið ys og þys út af engu“:
„Þennan dag fyrir 10 árum hefði ég aldrei trúað því að Icesave yrði blásið upp í stórkostlega milliríkjadeilu. Forsvarsmenn Landsbanka vissu vel að bankinn átti nægar eignir til að standa undir þeim kröfum. Það sagði ég skýrt í sjónvarpsviðtali í október 2008, sjálfum hrunmánuðinum. Sú reyndist líka raunin, en fáir voru tilbúnir til að horfast í augu við þá staðreynd fyrr en endanlegur dómur loks féll í málinu. Þá var Icesave orðin einhver alversta Grýla, sem nokkurn tímann hefur ætt um íslenskar grundir. Henni varð ekki komið fyrir kattarnef fyrr, þar sem allt of margir sáu sér hag í að blása í hana lífi.
Hrunhelgin í október 2008 hefur alltaf verið mér ofarlega í huga og ég ritaði ítarlega um þessa atburði alla í bók minni Billions to Bust and Back, sem kom út árið 2014. Þar skrifaði ég m.a., í íslenskri þýðingu:
Móðursýkin sem ríkti um Icesave, alþjóðlegu innlánsreikningana á netinu sem Landsbankinn hafði starfrækt, var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað fyrr. Icesave tröllreið íslenskum stjórnmálum í nokkur ár og olli því að nýja ríkisstjórn rak af leið við að takast á við deiluefni eins og eignarhald fiskistofna í íslenskri lögsögu og löngu tímabærar breytingar á stjórnarskránni. „Icesave-grýlan“ var svolítið eins og Y2K þúsaldarveiran í tölvum og gereyðingarvopnin í Írak: Heilmikið ys og þys út af einhverju sem síðan reyndist ekki vera neitt eða að minnsta kosti ekkert markvert. Líkt og með 2000-vandann og gereyðingarvopnin þá var Icesave notað til að þjóna hagsmunum þeirra sem harðast kyntu undir eldum óttans.
Icesave var hentug smjörklípa. Alla óáran vildu menn rekja til þessara innlánsreikninga. Og á meðan hrópað var hátt um að Icesave héldi þjóðinni í heljargreipum og hneppti íslensk börn í breska ánauð um ókomna tíð var horft framhjá því að menn fengu að stinga gjaldeyrisforða landsins að stórum hluta í eigin vasa og stjórnvöld fóru sínu fram með vafasömum björgunum á sparisjóðum í æskilegum kjördæmum, svo eitt dæmi sé tekið.
En Grýlan drapst að lokum. Sú niðurstaða var mikið fagnaðarefni. Nú þarf að fá endanlegar skýringar á því, hvernig Kaupþingi tókst að fá gjaldeyrisforða þjóðarinnar með blekkingum og upplýsa almenning, á 10 ára hrunafmælinu, í eitt skipti fyrir öll hvert gjaldeyrisvaraforði landsins fór.“