Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sakar fráfarandi formann Eflingar, Sigurð Bessason, um kvenfyrirlitningu í garð mótframbjóðanda uppstillingarnefndar Eflingar, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, hvers framboð Ragnar Þór sjálfur styður.
Þetta kemur fram í pistli Ragnars á Facebooksíðu hans, sem hann skrifar við frétt mbl.is um að Sósíalistaflokkurinn bjóði fram í Eflingu.
Ragnar tekur hressilega til orða og segir að honum sé frjálst að styðja grasrót allra stéttarfélaga til góðra verka, en Sigurður sagði í frétt mbl.is að meðlimir Eflingar verði að hugsa um hvort þeir vildu að félagið yrði leitt áfram af Ragnari, og vísaði þar til stuðnings Ragnars við Sólveigu Önnu.
Ragnar skilur þessa athugasemd Sigurðar sem svo að Sólveig sé „viljalaust verkfæri“ í hans höndum:
„Örvæntingin leynir sér ekki hjá Sigurði Bessasyni fráfarandi formanni Eflingar. Sem gefur í skyn að mótframbjóðandi uppstillingarnefndar til formanns Eflingar sé ekkert annað en viljalaust verkfæri einhverja karla út í bæ. Og tekur ekki bara afstöðu gegn sínum eigin félögum, sem hafa lýðræðislegan rétt á að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa fyrir félagið, heldur sýnir hann Sólveigu Önnu fádæma kvenfyrirlitningu. Þessari karlrembu risaeðlu hefði verið nær að mæta á opinn fund um Vor í verkó, þar sem frambjóðendur kynntu sig og sínar áherslur, til að skilja út á hvað framboðið gengur og kannski hlusta á grasrótina svona einu sinni.“
Ragnar Þór hefur átt í orðaskiptum við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ einnig og sendir honum sneið í pistlinum:
„Það er eins og að skjóta tívolíbombum úr gróðurhúsi þegar Gylfi eða Sigurður reyna að tengja framboðinu einhverjum pólitískum öflum með neikvæðum hætti og sýnir best þá örvæntingu sem gripið hefur um sig meðal þeirra. Það eru margir spenar í verkalýðshreyfingunni og margir sem sjúga fast. Það er líka mikill mannauður í hreyfingunni, starfsfólk stéttarfélaga sem fær ekki að blómstra vegna gjaldþrota hugmyndafræði örfárra.“
Pistilinn má lesa hér að neðan í heild sinni: