Ný skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs leiðir í ljós mikla þörf á uppbyggingu íbúða næstu áratugina. Þar segir að íbúðum þyrfti að fjölga um 17 þúsund á árunum 2017-2019 til að mæta undirliggjandi þörf og uppsöfnuðum skorti frá árinu 2012. Til samanburðar voru um 1.500 íbúðir byggðar árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir hér á landi.
Í skýrslunni segir að þrátt fyrir aukinn kraft í uppbyggingu íbúða um þessar mundir verði að teljast ólíklegt að uppsafnaður skortur frá árinu 2012 hverfi að fullu á næstu tveimur árum, þótt hann gæti minnkað. Von er á tölum um nýbyggingar og fólksfjölgun fyrir nýliðið ár, sem munu varpa frekara ljósi á stöðuna.
Mikilvægt að koma í veg fyrir skaðlegar sveiflur
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, segir frekari fjölgun nauðsynlega:
„Eitt stærsta verkefnið í húsnæðismálum í dag er að tryggja að fjölgun íbúða sé í takt við þörf. Þrátt fyrir aukinn kraft í nýbyggingum á síðustu tveimur árum þyrfti jafnvel að eiga sér stað enn meiri fjölgun íbúða næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf fyrir nýbyggingar. Mikilvægast er þó að tryggja að uppbygging sé stöðug til að koma í veg fyrir skaðlegar sveiflur á íbúðamarkaði og í byggingariðnaði.“
Aukin árleg uppbyggingarþörf íbúða næstu áratugina eða 2.200 íbúðir á ári
Áfram verður þörf fyrir talsverða uppbyggingu eða að meðaltali 2.200 nýjar íbúðir á ári hverju til ársins 2040 miðað við uppsafnaðan skort síðan 2012. Í skýrslu Íbúðalánasjóðs segir að um sé að ræða umtalsvert meiri uppbyggingu á ári hverju en var á tímabilinu 2009-2016. Allra næstu árin sé þó þörf á fleiri íbúðum árlega en sem þessari spá til ársins 2040 nemur enda sé uppsafnaður skortur til staðar.
Ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum og aldraðir gætu búið lengur heima
Þá hefur það einnig áhrif á þörf fyrir byggingu nýrra íbúða hversu lengi ungt fólk býr í foreldrahúsum og jafnframt hve seint aldraðir flytja á hjúkrunarheimili. Á undanförnum áratugum hefur skólaganga fólks lengst, fólk fer þar af leiðandi síðar á vinnumarkað og býr lengur í foreldrahúsum. Vilji fólk að meðaltali flytja 5 árum seinna úr foreldrahúsum árið 2040 en fólk gerði árið 2011 er þörf á um 11.000 nýjum íbúðum á tímabilinu 2017-2019 í stað 17 þúsund. Sú spurning stendur þó eftir hvort fólk vilji raunverulega flytja seinna að heiman en áður eða hvort það neyðist til að búa lengur heima. Hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum hefur vissulega aukist undanfarin ár en á sama tíma hefur verið hávær umræða um hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að fá húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Það er ekki aðeins ungt fólk sem flytur síðar. Aldraðir búa nú við betri heilsu en áður og haldi sú þróun áfram má ætla að það hafi áhrif á það hvenær fólk flytur að jafnaði á hjúkrunarheimili. Flytji aldraðir að jafnaði fimm árum síðar á hjúkrunarheimili en þeir gerðu árið 2011 er þörf fyrir 3.000 fleiri íbúðir árið 2040. Á móti minnkar þörf á uppbyggingu hjúkrunarheimila.