Donald Trump Bandaríkjaforseti var í viðtali við breska spjallþáttastjórnandann Piers Morgan sem birt var í gærkvöldi. Sagði hann til dæmis að Bandaríkin gætu gerst aðilar að Parísarsamkomulaginu, hann hefði tekið öðruvísi á Brexit heldur en Theresa May og þá sagðist hann tilbúinn til að biðjast afsökunar á því að hafa endurbirt eldfimt myndefni á Twitter frá öfgahægri hóp á Bretlandi, sem hann fékk mikla gagnrýni fyrir á sínum tíma.
Þá ítrekaði Trump að hann bæri gríðarlega virðingu fyrir konum og viðurkenndi að hann notaði gjarnan Twitter þegar hann væri uppi í rúmi, og hefði ekki fengið boðskort í brúðkaup Harry prins og Meghan Markle en væri þó glaður fyrir þeirra hönd, jafnvel þótt fröken Markle hefði lýst Trump sem „aðskilnaðar karlrembusvíni.“
Trump var harðlega gagnrýndur fyrir að ganga úr Parísarsamkomulaginu í júní, en 195 þjóðir gengu að samkomulaginu árið 2015 eftir stífar samningaviðræður. Trump sagði í viðtalinu að hann tryði á „hreint loft og vatn“ en að Parísarsamkomulagið hefði verið stórslys fyrir Bandaríkin. Hann hafði áður sagt að Bandaríkin hefðu dregið sig að fullu út úr samkomulaginu, en sagði í viðtalinu í gær að það gæti verið leið inn aftur:
„Í fyrsta lagi, þetta var hræðilegur samningur fyrir Bandaríkin. Ef þeir gerðu góðan samning er alltaf möguleiki á að við færum aftur inn. En þetta var hræðilegur samningur fyrir Bandaríkin. Hann var ósanngjarn,“
sagði Trump og bætti við:
„Ég trúi á hreint loft. Ég trúi á tandurhreint, fallegt…ég trúi einfaldlega á gott hreinlæti. Hafandi sagt það, ef einhver segir okkur að ganga að Parísarsamkomulaginu, þá yrði það að vera allt öðruvísi samningur, því við vorum með hræðilegan samning. Eins og venjulega þá notfærðu þeir sér okkur. Mundi ég ganga aftur inn í samkomulagið ? já, ég myndi fara aftur inn. Mér líkar við, eins og þú veist, mér líkar við Emmanuel (Macron). Ég myndi elska það, en það verður að vera góður samningur fyrir Bandaríkin.“
Aðspurður hvort Trump tryði á loftslagsbreytingar sagði hann:
„Það er kólnun og það er hitun. Ég meina sjáðu til, einu sinni var þetta ekki loftslagsbreytingar, heldur var þetta kallað hnattræn hlýnun. Það var ekki að ganga vel því það var að verða kalt um allan heim. Íshellurnar áttu að vera að bráðna, þær áttu að verða bráðnaðar núna, en nú eru þær að setja met. Þær eru með mesta móti.“
Þá var Trump spurður að því hvort hann væri femínisti:
„Ég myndi ekki segja að ég væri femínisti. Ég held að það væri of mikið sagt. Ég styð konur, ég styð karla. Ég styð alla. Ég held að fólk verði að fara út, það verður að fara út og gera það almennilega og það verður að sigra. Konur eru að gera vel og það gleður mig.“