Hannes Hólmsteinn Gissurason skrifar í laugardagsmoggann undir liðnum „Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð“ og birtir einnig á Facebook-síðu sinni og bloggsíðu. Yfirskriftin er „Andmælti Davíð en trúði honum samt“, og fjallar um viðbrögð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, við viðvörunum Davíðs Oddsonar, þáverandi seðlabankastjóra um bankahrunið.
Hannes segir að Þorgerður og maður hennar, Kristján Arason, hafi haft fjárhagslegan ávinning af viðvörunum Davíðs, þó svo Þorgerður hafi sagst ekki trúa þeim:
„Ég gat þess hér á dögunum, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingiskona sat seint á árinu 2007 trúnaðarfund í Þjóðmenningarhúsinu með seðlabankastjórum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þar sem Davíð Oddsson reifaði áhyggjur af því, að bankakerfið gæti hrunið. Andmælti hún þá honum. Eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2010, fengu þau Þorgerður og maður hennar, sem var í stjórnendahóp Kaupþings, síðan í febrúar 2008 undanþágu frá reglum Kaupþings, svo að þau gætu flutt mestöll hlutabréf sín í bankanum og skuldbindingar sínar þeirra vegna í einkahlutafélag. Með því minnkuðu þau áhættu sína stórkostlega, nokkrum mánuðum eftir að Þorgerður hafði hlustað á viðvaranir Davíðs á trúnaðarfundi.“
Hannes segir einnig að hjónin hafi selt þau hlutabréf sem ekki voru færð í einkahlutafélag þeirra:
„Það af hlutabréfum sínum, sem Þorgerður og maður hennar fluttu ekki í einkahlutafélag sitt, var leyst úr veðböndum. Þau seldu það fyrir 72,4 milljónir króna þriðjudaginn 30. september 2008, eins og fram kemur í Hæstaréttardómi í máli nr. 593/ 2013, sem kveðinn var upp 10. apríl 2014. Það var að morgni þess dags, sem Davíð Oddsson kom á ríkisstjórnarfund og sagði, að bankakerfið yrði hrunið innan 10-15 daga. Á fundinum andmælti Þorgerður honum og sagði, að „ámælisvert“ væri að koma og „dramatísera hlutina“. Davíð svaraði, að þetta ástand væri svo alvarlegt, að það væri ekki hægt að dramatísera. Síðar sama dag seldu þau hjónin þau hlutabréf sín, sem laus voru úr veðböndum. Þótt Þorgerður hefði andmælt Davíð, trúði hún honum.“
Í lokin reynir Hannes að gera stöðu Þorgerðar í pólitík tortryggilega:
„Eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skrifaði Þorgerður næsta dag Geir H. Haarde forsætisráðherra tölvubréf og krafðist þess, að Davíð yrði rekinn. Hvor er sú Þorgerður, sem nú býður fram krafta sína í íslenskum stjórnmálum: Sú, sem andmælti Davíð á fundunum tveimur, eða hin, sem trúði honum?“
Hvað fái Hannes til að skrifa um sína fyrrverandi flokkssystur á þessum tímapunkti skal ósagt látið, en flokksfundur Viðreisnar er í mars, þar sem búist er við að formaðurinn, Þorgerður Katrín, muni fá mótframboð frá Þorsteini Víglundssyni, sem segist hafa fengið hvatningu þess efnis, án þess að hafa gert það upp við sig hvort hann bjóði sig fram.