Það hefur mikið verið hneykslast á danska stjórnmálafræðiprófessornum Marlene Wind sem gerði lítið úr Færeyjum og Grænlandi í umræðum fyrr í vikunni. Sjálfsstæðissinnar í Færeyjum hafa sérstaklega stokkið á þessi ummæli hennar. Staða Færeyja og Grænlands innan danska ríkisins er náttúrlega alltaf viðkvæmt mál og orð prófessorsins sjálfsagt óheppileg – en þess er auðvitað að gæta að hún er óháður fræðimaður, ekki stjórnmálamaður.
Þessi orðaskipti áttu sér stað í heimsókn katalónska stjórnmálamannsins Charles Puigdemonts til Kaupmannahafnar. Wind sat meðal annars í pallborði með honum. Það er athyglisvert að hlusta á ræðu hennar sem er á ensku. Það má segja að Wind taki Puigdemont algjörlega í sundur með rökfestu sinni. Hann situr og flissar bara eins og hann viti ekki hvaðan á sig stendur veðrið.