Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það vera hættulega hugmynd að hætta uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.
En hængurinn er sá að þessi uppbygging er varla byrjuð – og það er óskiljanlegt. Það er risið eitt sjúkrahótel og kom í ljós um daginn að vantaði klæðningu utan á það svo það gæti legið undir skemmdum í vetur.
Þetta er eiginlega ráðgáta.
Það hefur verið talað um að byggja Landspítalann þarna síðan stuttu eftir aldamót. Lega nýju Hringbrautarinnar var ákveðin út frá þessu – það er alllangt liðið síðan hún var tekin í notkun.
Um tíma hét þetta Hátæknisjúkrahús. Þá var ákveðið að ríkið mundi ráðstafa ábatanum af sölu Símans í spítalann. Ekkert varð af því.
Jú, vissulega kom hrun, en hví hefur þetta tafist svona von úr viti? Getur verið að ein ástæðan sé sú að menn hafi aldrei haft almennilega sannfæringu fyrir staðsetningunni?
Enginn efast um þörfina á að byggja spítala. Maður heyrir skelfilegar sögur af aðstöðuleysi. En framhjá því verður ekki horft að ákvarðanatakan er á veikum grunni – og að ýmislegt hefur breyst á þeim fimmtán árum sem hefur verið áformað að byggja spítalann.
Og það er talsvert langt síðan maður fór fyrst að heyra þetta viðkvæði sem nú kemur frá Svandísi – að það sé háskalegt að breyta um kúrs.