Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að fjölmiðlar sem þurfi statt og stöðugt að minna á hvað þeir eru óháðir og hlutlausir, séu það síst allra. Vísar hann til fréttaskýringa Kjarnans um aukinn ójöfnuð og misskiptingu í íslensku samfélagi en í niðurlagi á nýjustu fréttaskýringunni kemur fram að virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkuðu um 23 milljarða að nafnvirði á árinu 2016. Þar af hækkuðu bréf ríkustu 10% þjóðarinnar um 21,8 milljarð.
En óháða og hlutlausa fjölmiðlinum fannst óþarfi að segja frá því að þessi verðbréf í eigu einstaklinga eru aðeins 12% af verðbréfaeign á Íslandi. Hin 88% eru í eigu almennings, ýmist í gegnum ríkissjóð eða lífeyrissjóði. Svo má benda þeim á, sem eru með fréttaskýringar í óháðum og hlutlausum fjölmiðli, að einstaklingar sem lítið fé hafi á milli handanna eru sjaldan að gambla með það á verðbréfamarkaði.
segir Brynjar í pistli á Pressunni.
Segir hann að þeir sem hafi lítið fé á milli handanna hafi lært af reynslunni þegar kemur að fjárfestingum á markaði. Þess má þó geta að nýlega birti Kjarninn fréttaskýringu þar sem kom fram að íslenskir lífeyrissjóðir áttu 70% allra markaðsskuldabréfa og víxla og 41% skráðra hlutabréfa hérlendis á árinu 2016. Brynjar gefur lítið fyrir fjölmiðla sem segjast vera óháðir og hlutlausir:
Þeir fjölmiðlar sem statt og stöðugt þurfa að minna á hvað þeir eru óháðir og hlutlausir eru það síst allra. Held að gömlu flokksblöðin, sem við sem eldri erum munum eftir, hafi verið hlutlausari í fréttaskýringum sínum. Sjálfur sakna ég gamla Þjóðviljans.