Reykjavíkurborg efnir nú til hugmyndaleitar um hagkvæmt húsnæði og er sérstaklega horft til hugmynda sem hjálpa ungu fólki og fyrstu kaupendum að komast í húsnæði. Einnig er leitað almennt eftir verkefnum sem hjálpa borginni að ná markmiðum sínum í aðalskipulagi sem eru að allt að 25% íbúða verði miðaðar við þarfir þeirra sem ekki vilja leggja eða ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.
Öllum er velkomið að senda inn hugmyndir og skulu þær berast í síðasta lagi 8. febrúar 2018. Nánari upplýsingar um skil hugmynda er að finna á vefsíðunni Hagkvæmt húsnæði – hugmyndaleit.
· Hugmyndir geta snúist um hugmyndafræði og/eða byggingaraðferð.
· Lóðir í Gufunesi, Ártúnshöfða, Skerjafirði, hjá Veðurstofu Íslands og Sjómannaskólanum eru mögulegar fyrir útfærslu hugmynda.
· Fjöldi aðila hefur nú þegar kynnt hugmyndir um áhugaverðar húsnæðislausnir.
· Skilafrestur hugmynda er til 8. febrúar.
Hugmyndafræði og byggingaraðferðir
Hugmyndir geta bæði gengið út á nýja hugmyndafræði, nýja byggingaraðferð eða blöndu beggja aðferða. Með hugmyndafræði er átt við leiðir sem geta auðveldað fólki að komast í gott húsnæði eins og til dæmis nýsköpun í leigufyrirkomulagi, samnýtingu eða fjármögnun. Með nýjum byggingaraðferðum er átt við hugmyndir sem geta lækkað byggingarkostnað húsnæðis og þar með kostnað íbúa.
Hrefna Þórsdóttir og Óli Örn Eiríksson hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar segja að húsnæðismálin séu ein stærsta áskorun samtímans. Mikill fjöldi ungs fólks sem vill komast á húsnæðismarkað telur það umtalsvert erfiðara en hjá fyrri kynslóðum og ljóst sé að það húsnæði sem er verið að þróa og byggja í dag hentar ekki öllum. Það sé þörf á nýjum skapandi lausnum til þess að fjölga valkostum fyrir fólk í húsnæðisleit.
Áhugaverðar lausnir hafa þegar verið kynntar
Fjöldi aðila hefur verið í sambandi við Reykjavíkurborg og kynnt hugmyndir um áhugaverðar húsnæðislausnir, að sögn Hrefnu og Óla Arnar. Á meðal hugmynda sem hafa verið til umræðu má nefna fjölbreyttara efnisval, nýjar fjármögnunarleiðir, smáhýsi, forsmíðuð einingahús og deilihúsnæði, en það eru t.d. íbúðarherbergi með sameiginlega aðstöðu.
Reykjavíkurborg hefur hug á að leggja til verkefnisins lóðir á völdum svæðum í borginni. Þar á meðal geta lóðir í Gufunesi, Ártúnshöfða og Skerjafirði staðið til boða fyrir verkefnið ásamt lóðum hjá Veðurstofu Íslands og Sjómannaskólanum. Skipulagsvinna fyrir þessi svæði er á byrjunarstigi. Með umsókn sinni er æskilegt að umsækjendur forgangsraði á hvaða svæði þeir vilja þróa sínar lausnir og tilgreini líklegan fjölda íbúðareininga.