fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Náttúrumaður í tónlist

Egill Helgason
Miðvikudaginn 24. janúar 2018 17:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas Tómasson bassaleikari er látinn eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Margir hafa skrifað falleg eftirmæli um hann, enda var Tómas feikilega vinsæll maður. Hann var ljúfur í lund, bráðskemmtilegur, feikilega orðheppinn og mikil uppspretta sagna. Eitthvað af því kom út í bók sem kom út 2005 og nefndist Sögur Tómasar frænda.

 

 

Tómas þótti einstaklega tónvís. Hann fékkst ekki bara við bassaleik með Stuðmönnum og Þursaflokknum og fleiri sveitum, heldur sá hann um upptökustjórn á fjölda hljómplatna, meðal annars hjá Bubba Morthens og Baraflokknum. Tómas byrjaði bráðungur í tónlistinni og fór snemma sögum af því hvað hann væri músíkalskur.

Í hinni bráðskemmtilegu bók Egilssögur, á meðan ég man, segir Egill Ólafsson, félagi Tómasar í marga áratugi, frá fyrstu kynnum sínum af Tómasi. Tómas var í lúðrasveit hjá Karli O. Runólfssyni tónskáldi:

Karl tók miklu ástfóstri við Tómas M. Tómasson, síðar bassaleikara. Hann sagði Tómas vera náttúrumann í músík og hann vissi ekki annan betri í röðum ungmenna. Tómas lék á klarinett í lúðrasveitum sem Karl stjórnaði á þessum tíma. Og ekki minnkaði álitið á Tomma þegar hann er staddur við vígsluathöfn Háteigskirkju, með hóp drengja, hátt uppi á svölum utandyra, yfir aðalinngangi kirkjunnar. Tómas er þar fremstur meðal jafningja og stendur nálægt stjórnanda sínum. Karl Ottó var fremur lágvaxinn maður og því hafði orðið að ráði að setja hann upp á lítinn trékassa fyrir appelsínflöskur. Kirkjan var hálfbyggð og því vantaði upp á handriðið á svölunum.

Karli Ottó þótti ekki vont að fá sér örlitla brjóstbirtu þegar unnið var úti við í kalsa eins og þennan morgun og hafði fengið sér fingurbjörg og sveiflaði sínum tónsprota frammi fyrir drengjunum af innlifun og lyftir olbogum hærra en oft áður  þannig að  allt fer að sveiflast og svífa. Tómas horfir á sinn part sem er festur ofan á klarinettið, en hefur annað augað á stjórnanda sínum. Svo skiptir engum togum að Karl Ottó sveiflar handleggjunum of mikið svo hann missir jafnvægið og sýnist ætla að svífa borðalagður með axlarskúfa á vit eilífðarinnar yfir lágt handriðið. Hann sveiflar sprotanum nánast í láréttri stöðu og í því að hann er að skilja við trékassann grípur Tómas Magnús af snarræði í neðanverðan lúðrasveitajakkann, nær taki á fáeinum kopartölum með sinni styrku hendi og tyllir stjórnandanum niður á kassann án þess að missa niður slag úr laginu.

„Megi allar góðar vættir vernda þig, Tómas minn Magnús – þú ert bara snillingur og ekkert annað,“ var jafnan viðkvæði tónskáldsins eftir þetta.

Páll Valsson skráði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur