Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag fjargviðrast höfundur yfir Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingar og Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, fyrir að vera með „hávaða“ og standa fyrir „sýndarréttarhöldum“ í þingnefnd, til þess að knýja fram afsögn dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen.
Helga Vala er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Jón Þór er 2. varaformaður nefndarinnar.
Í fréttum í gær var mikið gert úr ummælum Jóns um að markmiðið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, væri að halda „málinu lifandi með rannsókn sem er það líklegasta í stöðunni til að fá hana til að axla ábyrgð.“ Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi þessi vinnubrögð Pírata og sagði Jón Þór vera að beita nefndinni til þess að koma höggi á ráðherrann.
Staksteinar eru í svipuðum dúr, nefna að Jón Þór sé að setja þrýsting á VG til að fá fram vantraust á Sigríði, en hann sé jafnframt þeirrar skoðunar að ekki þurfi að upplýsa frekar um málið. Því sé rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar aðeins „sýndarmennska.“
Staksteinar taka undir gagnrýni Brynjars Níelssonar frá því í gær, hvort þetta séu hin nýju, málefnalegu og vandaðri vinnubrögð sem Píratar stóðu fyrir í kosningabaráttunni.
Leiðari í sama dúr
Í leiðara Morgunblaðsins er einnig fjallað um þingnefndir, á nokkuð almennan hátt, en ekki þarf nema að lesa yfirskrift hans, „Þingnefndirnar eyðilagðar“, til að skilja hvað við er átt. Höfundur er ekki sáttur við að minnihlutaþingmenn fái formennsku í þingnefndum, jafnvel þó hann viðurkenni að þeir hafi ekkert vald, það sé að mestu „sýndarskapur“, forsenda valdsins sé að formaður sé í meirihluta.
„Það er helst ef fundarstjórinn er reiðubúinn til að misnota vald sitt og pólitískir samherjar í pólitískasta fjölmiðli landsins „RÚV“ eru tilbúnir að spila með sem formaður getur seilst í vald sem hann hefur ekki,“
segir höfundur leiðarans og heldur áfram:
„Þingmönnum hefur sárnað hversu lítið álit þjóðin hefur á þinginu. Það er skiljanlegt. Þessi aðgerð að leiðrétta aðeins úrslit lýðræðislegra kosninga var hugsuð til að bæta eitthvað úr því. Það var ekki líklegt og hefur ekki tekist, nema síður sé. Allir sem til þekkja hafa vitað að það er ekki starf þingmanna í nefndum sem hefur dregið álit þingsins niður í svaðið. Mjög margir þingmenn leggja fram mikla vinnu og málefnalega í þingnefndunum. Það er í raun mjög þýðingarmikið fyrir þjóðarhag að sem flestir í þingnefndunum vinni vel og vandi sig.“
Í lokin nefnir höfundur síðan hvað það er sem hefur áhrif á álit almennings á Alþingi:
„Það eru upphlaup, framganga, talsmáti, málvillur, rugl og rökleysur í bland við skort á sjálfsstjórn og sjálfsgagnrýni í þingsalnum sem rústar álit þingsins. Það bætir ekki úr að færa leðjuslaginn einnig inn í þingnefndirnar.“
Ljóst má vera að hér er fjallað um framgang Helgu Völu og Jóns Þórs í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að „knýja“ fram afsögn dómsmálaráðherra.